Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, ætlar að fara gaumgæfilega yfir það sem Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, sagði í fjölmiðlum í dag og hvort sá síðarnefndi hafi endurtekið þær ávirðingar sem bornar voru á hann á þingfundi í gær. Í framhaldinu mun hann skoða réttarstöðu sína.
Eins og komið hefur fram á mbl.is þá kallaði Gunnar Bragi fram úr sæti sínu á þingfundi í gærkvöldi: „Ég hef þó ekki logið að þinginu eins og þú.“ Þá var Steingrímur J. í ræðustól. Gunnar Bragi kom síðar upp og sagði: „Mér þykir miður ef ég hef vegið nærri þingmanninum Steingrími J. Sigfússyni og bið hann afsökunar á því.“ Steingrímur tók þá afsökun gilda.
Í fjölmiðlum í dag hefur komið fram að Gunnar Bragi standi við orð sín og rifjaði hann upp þegar Steingrímur var spurður út í samninga um Icesave. Sagði hann marga telja að Steingrímur hefði sagt ósatt úr ræðustóli.
Steingrímur kvaddi sér hljóðs á þingfundi í kvöld og bað þingmenn um að hlífa þinginu við frekari umræðu um þetta mál. Nú hafi einstaklingurinn Gunnar Bragi að einhverju leyti endurtekið ávirðingarnar við fjölmiðla og til séu hljóðupptökur af því. Hann sagði ætla að hlusta á þær og skoða réttarstöðu sína í framhaldinu.
Steingrímur sagðist telja að hann hefði fengið sæmilega heiðvirða afsökunarbeiðni í gær og hana hefði hann tekið gilda. Hann átti ekki von á því að framhald yrði á. Nú hafi það orðið og segi mest um Gunnar Braga sjálfan.
Hann sagði þetta mjög alvarlegar ávirðingar og ásakanir. Það að ráðherra segi þingi ósatt leiði yfirleitt til tafarlausrar afsagnar, alla vega í nágrannalöndunum. Steingrímur sagði því best að færa þessi samskipti Steingríms J. og Gunnars Braga út fyrir veggi Alþingis þar sem framhaldið komi í ljós.