Tæplega 29 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til Alþingis um að leyfa þjóðinni að kjósa um hvort halda eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið áfram.
Um er að ræða 11,9% kosningabærra manna á Íslandi, að því er segir á síðunni þar sem hægt er að skrifa undir.
Þingfundur hefst klukkan 15 í dag og verður þar áfram rætt um Evrópumálin. Þingfundi var slitið klukkan 23:40 í gærkvöld, tuttugu mínútum fyrr en áætlað var, sökum þess að Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri-grænna, sem átti að fara að flytja ræðu, óskaði eftir að forsætisráðherra og fjármálaráðherra yrðu viðstaddir. Ekki var hægt að kalla þá út með svo stuttum fyrirvara.
Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli klukkan 17 í dag, þriðja daginn í röð, og á Facebook er fólk hvatt til að mæta með potta og pönnur, fána og skilti.