Vilja að tillagan verði afturkölluð

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra sem nú liggur fyrir Alþingi gengur þvert á vilja fulltrúa þorra félagsmanna aðildarsamtaka á þingi ASÍ. Um leið er með þingsályktuninni, yrði hún samþykkt, tekinn út eini raunhæfi kosturinn til að taka hér upp gjaldmiðil á næstu árum sem komið getur landinu úr viðjum gjaldeyrishafta og lagt grunninn að stöðugleika og nýsköpun í atvinnulífinu til hagsbótar fyrir launafólk og allan almenning.“

Þetta segir í ályktun frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Ennfremur segir að málið sé sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að ekki liggi fyrir nein áætlun eða stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar í gengis- og peningamálum sem lagt geti slíkan grunn að stöðugleika. Það sé mat miðstjórnar ASÍ að með þessu sé ríkisstjórnin að setja markmið aðila vinnumarkaðarins um nýjan grunn að gerð kjarasamninga í uppnám. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands skori því á ríkisstjórnina að draga þingsályktunartillöguna til baka og efni þess í stað til málefnalegrar umræðu um raunverulega valkosti til framtíðar í gengis- og peningamálum.

„Stutt er í að Alþjóðamálastofnun skili aðilum vinnumarkaðarins skýrslu um stöðu aðildarviðræðnanna við ESB sem væntanlega leggur mikilvægar upplýsingar og sjónarmið inn í þessa umræðu. Verði ríkisstjórnin ekki við áskorun ASÍ um að draga þingsályktunartillöguna til baka þá hvetur miðstjórn ASÍ þingmenn til að hafna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra og leyfa þjóðinni þess í stað að taka afstöðu til áframhaldandi viðræðna við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert