Besta afkoman í rúman áratug

Óskar Magnússon útgefandi Morgunblaðsins.
Óskar Magnússon útgefandi Morgunblaðsins. mbl.is/Golli

heildartekjur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og mbl.is, námu 3.258 milljónum króna á síðasta ári. Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 164 milljónum króna, borið saman við 101 milljón árið 2012, og hagnaður eftir skatta var rúmar sex milljónir króna.

Þetta er besta afkoma Árvakurs frá árinu 2002, ef 2004 er undanskilið þegar hagnaður var af sölu fasteignar og lóðar við Kringluna 1.

Rekstrarhagnaður jókst um 63 milljónir á milli ára og hefur aukist um rúmar 660 milljónir frá árinu 2009, þegar núverandi eigendur Árvakurs tóku við rekstrinum, en fyrsta árið varð rekstrarhalli upp á 500 milljónir króna. Eigið fé í árslok 2013 var um 980 milljónir kr. og eiginfjárhlutfallið 47%. Heildareignir Árvakurs námu um 2,1 milljarði í lok árs.

Óskar Magnússon, útgefandi Árvakurs, segir að með samstilltu átaki allra starfsmanna, hvar sem er í fyrirtækinu, hafi tekist að snúa miklum taprekstri yfir í hagnað. „Hagnaðurinn er að vísu ekki mikill en engu að síður er grundvallarmunur á því að vera réttum megin við núllið, og mikil breyting frá því sem verið hefur undanfarinn áratug eða þar um bil. Þetta hefur tekist með útsjónarsemi við tekjuöflun og ráðdeildarsemi um allan kostnað, án þess að slaka á þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra miðla og starfsemi sem við rekum. Allt er þetta sérstaklega ánægjulegt því síðasta ár var 100 ára afmælisár Morgunblaðsins,“ segir Óskar.

Höfuðstöðvar Árvakurs í Hádegismóum
Höfuðstöðvar Árvakurs í Hádegismóum mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert