Mæðgurnar Kristín S. Bjarnadóttir í Sigluvík á Svalbarðsströnd og Sóley María Hauksdóttir hafa fengið leyfi til að heimsækja Geir Þórisson, sem dæmdur var til tuttugu ára fangelsisvistar og hefur nú afplánað sextán ár í Greensville-fangelsinu í Virginíu í Bandaríkjunum.
Allar reglur í þessu rammgerða fangelsi eru mjög strangar. Geir hefur verið mjög einangraður frá umheiminum, tölvur eru ekki leyfðar og hann má aðeins hringja í tvö símanúmar.
Kristín og Sóley halda utan eftir helgi, að því er segir á vef Vikudags. Þær tengjast honum ekki fjölskylduböndum en hafa verið í bréfasambandi við hann í átta ár.
Geir og bandarískur félagi hans voru dæmdir fyrir alvarlega líkamsárás, Geir fékk eins og áður sagði 20 ára dóm en Bandaríkjamaðurinn fimmtán ár. Ástæðan fyrir því að Geir fékk þyngri dóm var sú að hann stal peningaveski af fórnarlambinu.
Í frétt RÚV frá árinu 2012 kom fram að fórnarlambið var þekktur borgari í smábæ í Virginíu, foringi í bandaríska hernum.
Fullyrt er að enginn Íslendingur hafi setið eins lengi í fangelsi og Geir Þórisson. Þegar refsivist Geirs lýkur verður hann sendur til Íslands því að hann var sviptur landvistarleyfi í Bandaríkjunum, segir ennfremur í frétt RúV.
Árið 2006 fór Sigmar Guðmundsson, ritstjóri Kastljóss Sjónvarpsins, vestur til Virginíu ásamt Benedikt Ketilssyni myndatökumanni. Þeir fengu eftir heilmikla fyrirhöfn að hitta Geir Þórisson í fangelsinu og taka við hann viðtal.