Þingmenn fá rúmlega sjö tíma hlé til þess að undirbúa sig og hvíla á milli þingfunda í dag en þingfundi var slitið klukkan 3:10 í nótt. Þingfundur hefst á ný klukkan 10:30. Þar verða málefni ESB enn á ný til umræðu en líkt og undanfarna daga verður rætt um skýrslu sem Hagfræðistofnun vann fyrir utanríkisráðherra, Gunnar Braga Sveinsson, um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið.
Þingfundur hefst á óundirbúnum fyrirspurnum og verða heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og innanríkisráðherra viðstaddir umræðuna.
Nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd og stjórnskipunar og eftirlitsnefnd þurfa hins vegar að taka daginn snemma því nefndarfundir hefjast klukkan 8:30 í dag. Eins er fundur í atvinnuveganefnd klukkan 9.
Tæplega 35 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun um að þjóðin fái að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort slíta eigi viðræðunum um aðild. Boðað hefur verið til fjórða mótmælafundarins á Austurvelli klukkan 17 í dag.