Þingmenn gagnrýndu forseta Alþingis harðlega í morgun fyrir að hafa leyft þingfundi að standa fram á miðja nótt en þingfundi var slitið klukkan 3:10 í nótt.
„Forseta getur ekki verið alvara. Það á þó ekki að koma á óvart að stjarnfræðileg svik Sjálfstæðisflokks á kosningaloforðum séu rætt um miðja nótt,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar. „Umræðu um andsvör lauk klukkan rúmlega þrjú í nótt og það er alveg óútskýrt af hálfu forseta hvaða þrýstingur sé á þinginu, til þess að slíkt geti talist sæmandi,“ sagði Helgi. Hann sagði það vera umhugsunarvert að allir ráðherrar stjórnmálaflokks hafi svikið kosningaloforð sín ótilneyddir innan árs frá því þau voru gefin. „Þetta vekur spurningar um gildi þeirra loforða. Eigum við að skilja það þannig að þegar Illugi Gunnarsson lofi þjóðinni einhverju, áskilji hann sér rétt til að svíkja það loforð?“ sagði Helgi.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði næturfundi vera engin nýmæli og minnti á að umræður um nokkur mál hefðu staðið fram á miðja nótt á síðasta kjörtímabili, þ. á m. Icesave.
„Það þurfa að vera rök fyrir næturfundum og það er ekki nóg að vísa alltaf til fortíðar. Hvað með að breyta vinnubrögðunum?“ sagði Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.