Þingfundi hefur ítrekað verið frestað í kjölfar þess að þingflokksformenn funduðu með Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, í hádeginu. Þingfundur átti að hefjast klukkan 13:30 en var þá frestað til klukkan 14:00. Þá var fundi frestað til 14:30 og nú síðast tilkynnti Einar að þingfundi yrði frestað til klukkan þrjú.
Samkvæmt heimildum mbl.is standa yfir viðræður um framhald umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið sem rædd hefur verið á Alþingi undanfarna daga. Þegar þeirri umræðu er lokið mun Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mæla fyrir þingsályktunartillögu sinni um að draga umsóknina til baka.