Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mælti um klukkan 17.00 í dag fyrir þingsályktunartillögu sinni um að umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið verði dregin til baka í kjölfar þess að umræða um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands lauk í dag í samræmi við samkomulag þingflokksformanna fyrr í dag.
Fulltrúar stjórnmálaflokkanna á Alþingi flytja ræðu um þingsályktunartillöguna í kjölfarið og tillagan fer síðan til utanríkismálanefndar og umræðum um hana frestað til 10. mars að loknum þingnefndadögum í næstu viku. Gunnar Bragi vísaði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og stefnur stjórnarflokkanna í Evrópumálum máli sínu til stuðnings. Flokkarnir væru andvígir inngöngu í Evrópusambandið.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hvatti utanríkisráðherra til þess að draga þingsályktunartillöguna til baka þar sem hún væri vond. Því hafnaði ráðherrann. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, ítrekaði ásakanir í garð stjórnarflokkanna um að hafa svikið þá stefnu sem þeir buðu fram fyrir síðustu þingkosningar.
Mótmælendur eru saman komnir á Austurvelli eins og undanfarna daga en mótmælin eru tiltölulega fámenn að þessu sinni miðað við fyrri mótmæli.