Stjórn Blaðamannafélags Íslands fordæmir allar tilraunir til að vega að skoðana- og tjáningarfrelsi í landinu. Hún segir að það verði ekki þolað að fólk í valdastöðum reyni að beita áhrifum sínum til að vega að tilverugrundvelli fjölmiðla.
Ástæðan er sú að Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hvatti fyrirtækið EGF húðdropa til að hætta að auglýsa á vef Kvennablaðsins en auglýsingu frá fyrirtækinu var að finna fyrir ofan umfjöllun um ummæli sem Vigdís Hauksdóttir hefur látið falla.
Stjórn Blaðamannafélagsins segir slíkar tilraunir dæma sig sjálfar.
„Síst af öllu ættu stjórnmálamenn, sem eiga allt sitt undir því að skoðana- og tjáningarfrelsið sé sem virkast í landinu, að grípa til slíkra örþrifaráða. Tjáningarfrelsið felur ekki bara í sér réttinn til að láta skoðanir sínar í ljós heldur einnig þá skyldu að virða skoðanir annarra.“