Fyrrverandi forsætisráðherra segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson hafi ofmetnast á ráðherrastólum sínum og þaðan telji þeir sig geta gefið þjóðinni „langt nef“. Ráðherrann segir ekki hægt að líða slíka ósvífni og stærilæti.
Á samfélagsvefinn Facebook skrifar Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, að stjórnarflokkarnir séu staðráðnir í að svíkja kosningaloforð sín um að þjóðin fái að ráða hvort framhald verði á aðildarumsókninni að Evrópusambandinu. „Valdahrokinn og yfirgangurinn er algjör,“ segir Jóhanna.
Hún segir forsætisráðherra og fjármálaráðherra, formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, engu skipta þótt 82% þjóðarinnar, samkvæmt könnun Fréttablaðsins, vilji þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þeir hafa ofmetnast í ráðherrastólunum og telja sig bara geta gefið fólkinu langt nef.“