„Ég bjóst alveg við þessari niðurstöðu, þetta er algjörlega í takt við þá þær tilfinningar sem ég hafði þegar við gerðum trúnaðarmönnum og formönnum kennarafélaganna grein fyrir þessu mati okkar, að boða þyrfti til atkvæðagreiðslu til að setja pressu á samningaviðræðurnar,“ segir Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, samtali við mbl.is eftir að talningu atkvæða í atkvæðagreiðslu félagsmanna Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum um boðun verkfalls í ríkisreknum framhaldsskólum frá og með 17. mars næstkomandi lauk núna í hádeginu.
Aðalheiður segir niðurstöðuna gríðarlegan stuðning við samninganefndir framhaldsskólakennara og áherslur þeirra. „Þessi ákvörðun, að fara í atkvæðagreiðsluna, skapar pressu í sjálfu sér og einnig að sjá svona skýra niðurstöðu. Nú verður bara að halda áfram að funda stíft, það er enn tími til stefnu að gera kjarasamninga við eðlilegar aðstæður,“ segir Aðalheiður.
Hún leggur áherslu á að verkfall sé neyðaraðgerð, þetta geri enginn að gamni sínu. „Nú ríður mjög á að tíminn verði nýttur vel til samræðna og fundarhalda og þannig heldur það verið að undanförnu. Ég geri alveg ráð fyrir því að það verði þannig áfram,“ segir Aðalheiður. Næst verður fundað á mánudaginn.
„Nú þurfa allir að halda ró sinni og kappkosta að gera kjarasamninga, en svo það takist þá þarf fjármálaráðherra að veita sínum fulltrúum myndarlegt umboð til að ganga til kjarasamninga við kennara og stjórnendur í framhaldsskólum,“ segir Aðalheiður. „Stjórnvöld þurfa að taka ákvörðun um að víkka út fjárhagsramma framhaldsskóla, þeir eru komnir í fjárhagslegt þrot.“
En hvaða skilaboð hefur þú til nemenda í framhaldsskólum?
„Það sem ég vil segja við nemendur og forráðamenn þeirra er að nemendur ættu að halda sínu striki í námi sínu. Í öðru lagi ættu nemendur og forráðamenn þeirra að gera skýra kröfu til fjármálaráðherra að hann gangi til kjarasamninga með myndarlegt umboð. Nemendur eiga skýlausan rétt á því að geta stundað nám sitt í friði, það á ekki að þurfa að koma til verkfalls,“ segir Aðalheiður.
„Skilaboðin þurfa að vera til fjármálaráðherra af hálfu nemenda að ráðherra gangi strax í það verk að veita sínum fulltrúum umboð þannig að hægt verði að gera kjarasamning.“
Frétt mbl.is: „Þetta er afgerandi niðurstaða“