Orðræðan einkennist af persónuníði

Fullorðið fólk er börnum slæmar fyrirmyndir í orðræðu á Internetinu, …
Fullorðið fólk er börnum slæmar fyrirmyndir í orðræðu á Internetinu, segir verkefnastjóri Saft. Kristinn Ingvarsson

Allir eiga rétt á að tjá sig í ræðu og riti og Internetið býður þar upp á fjölmarga möguleika en orðræðan á þeim vettvangi getur þó verið óvægin á stundum. Vekja þarf fólk til umhugsunar um alvarleika hatursorðræðu á netinu, segir verkefnastjóri Safts, vakningarátaks um örugga og jákvæða tölvunotkun.

„Það er mjög sorglegt að sjá hvað fullorðið fólk getur verið slæmar fyrirmyndir yngstu kynslóðarinnar í umræðu á netinu,“ segir Björn Rúnar Egilsson, verkefnastjóri Safts. „Sumir virðast hugsa um netið sem einhvern annan heim en raunheiminn, en þú átt ekki að segja eitthvað á netinu sem þú gætir ekki sagt við manneskjuna augliti til auglitis,“ segir hann.

Saft fór nýverið af stað með verkefnið „Ekkert hatur“ sem beint er gegn hatursorðræðu á Íslandi og er markmið þess að stuðla að vitundarvakningu um hatursáróður meðal ungs fólks og styðja þau í að verja mannréttindi á netinu.

Fullorðnir eru óvægnari

Hann segir fullorðna oft og tíðum vera óvægnari en krakkana. „Ég fæ það oft á tilfinninguna að krakkarnir séu meðvitaðri um það sem þeir setja frá sér á netinu. Netið er svo nýtt fyrir mörgum og það er alls ekki þannig að hinir fullorðnu kunni að haga sér þar betur.“

Hann telur fræðslu vera mikilvægasta vopnið í baráttunni. „Það þarf að átta sig á því að netið er ekki bara grínheimur þar sem afleiðingarnar eru engar. Þú átt ekki að setja eitthvað í athugasemd eða spjallþráð sem ekki mætti til dæmis birtast í fréttunum. Þetta er það sem við erum að fara með í skólana og finnum að full þörf er á að gera.“ Björn segir fullorðna gjarnan mega hlusta á skilaboðin. „Krakkarnir segjast taka eftir því að alþingismenn tali oft illa hver um annan og segja það sem fólk láti út úr sér í athugasemdakerfum vera fyrir neðan allar hellur.“

Krakkar í dag hafa alist upp með netinu og kunna því oft að nota það betur. „Krakkarnir eru heimamenn á netinu, en fullorðna fólkið virðist stundum kunna verr að fóta sig. Við erum að leggja okkar af mörkum til að missa ekki af þeirri kynslóð sem nú er að vaxa upp.“

Umræðan einkennist af persónuníði

Orðræðuna á Íslandi segir hann einkennast af persónuníði. „Erlendis er meira um hatursáróður gagnvart fólki af öðrum kynþáttum, en Íslendingar níðast meira á persónunni og ef til vill fyrir það eitt að sá aðili hafi aðrar lífsskoðanir,“ segir Björn.

Hann telur það ekki góða hugmynd að taka alfarið fyrir athugasemdakerfi fjölmiðla. „Ef maður bannar umræðuna þar færist hún á annan vettvang. Fólk þarf einfaldlega að bera ábyrgð á því sem það segir og því þarf að kenna að umgangast netið. Það verður alltaf stærri og mikilvægari hluti af lífi okkar og við þurfum einfaldlega að haga okkur eftir því,“ segir Björn.

Fjölmiðlar ættu að eyða grófum ummælum

Páll Sigurðsson, prófessor í fjölmiðlarétti við Háskóla Íslands, tekur í sama streng og Björn og telur lykilinn liggja í fræðslu en segir ábyrgðina einnig vera hjá fjölmiðlum. „Fjölmiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega eiga að herða ritstjórnina hjá sér. Það á alls ekki að koma í veg fyrir að fólk geti nýtt sér tjáningarfrelsi sitt og talað eðlilega um það sem er að gerast í þjóðfélaginu, en þegar ummæli beinast að einstaklingum með sérlega grófum hætti ætti að loka á það,“ segir Páll.

Ekkert ákvæði í lögum beinist sérstaklega að ummælum á internetinu, en þeir sem telja á sér brotið geta ýmist höfðað meiðyrðamál eða leitað til lögreglu, feli ummælin í sér hótun. Páll telur að upplýsa þurfi fólk um réttarstöðu þess. „Það þarf að gera fólki grein fyrir því að það sé ekki réttlaust vegna ummæla sem að því beinast og brýna fyrir því að fara ekki of seint af stað með málið. Ég tel það vera skynsamlegra að notast við þau ákvæði sem fyrir eru í lögum en að fara búa til einhver sérákvæði um ógnanir á netinu.“

Erfiðara segir hann hins vegar að ráða við almenn skoðanaskipti. „Ef þetta eru hvorki hótanir né meiðyrði er erfitt að ráða við það. Hver og einn verður að geta haft sína skoðun og til dæmis verður listamaður sem fram kemur opinberlega að geta tekið við því.“

Hál braut að feta

Páll er ekki gefinn fyrir hugmyndir um einhvers konar netlögreglu. „Það er munur á því hvort það sé lögregludeild sem stoppar ákveðin ummæli á netinu eða hvort það sé í höndum fjölmiðlanna sjálfra.“ Hann segir það vera hála braut að feta að ætla að banna ákveðna hluti á Internetinu, skorðurnar gætu að lokum orðið of þröngar. „Menn geta bannað barnaklám á netinu og flestir verið sammála um ágæti þess. Næst gæti verið að banna ofbeldi og þar á eftir fullorðinsklám. Það er alltaf hætta á að næsta skref verði tekið,“ segir Páll.

Björn segir suma virðast hugsa um Netið sem einhvern annan …
Björn segir suma virðast hugsa um Netið sem einhvern annan heim en raunheiminn. AFP
Þeir sem telja á sér brotið geta ýmist höfðað meiðyrðamál …
Þeir sem telja á sér brotið geta ýmist höfðað meiðyrðamál eða leitað til lögreglu. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert