Innanríkisráðuneytið hefur hafnað ósk aðstandenda látinnar manneskju um að fá að dreifa ösku hennar við Þingvallavatn.
Það vísar í reglugerð um dreifingu ösku látinna manna utan kirkjugarða en þar segir að ekki sé heimilt að gera það yfir stöðuvötn eða byggð.
Þingvallanefnd lagði mat á beiðnina en í reglugerðinni er heimilað að ösku sé dreift yfir haf og óbyggðir. Taldi nefndin að Þingvellir féllu ekki undir þá skilgreiningu. Þetta var í fyrsta skipti sem nefndin hefur tekið fyrir beiðni um að dreifa ösku í þjóðgarðinum.