„Mamma segir að það sé hræðsla, óöryggi og allt óvíst,“ segir Vera Kalishnikova sem er frá borginni Donetsk í Úkraínu en hún hefur búið hér á landi í 11 ár. Hún kemur frá þeim hluta landsins þar sem stuðningur við Janúkóvítsj er enn mikill og hún segir það ekki útilokað að átökin gætu magnast upp í borgarastyrjöld.
Fréttir af því að Rússar séu farnir að auka viðbúnað sinn á Krímskaga hafa valdið titringi á síðustu tveimur dögum þar sem þeir hafa fjölgað í herliði sínu í flotastöðinni í Sevastopol ásamt því að tryggja sér flugvöllinn í Simferopol ásamt fleiri byggingum. Vera segir stuðing við Pútín mikinn á svæðinu og fólk sé því að vissu leyti ánægt með að viðbúnaðurinn sé aukinn þar.