„Stemningin á fyrstu árum bjórsins var skemmtileg. Fyrstu árin á Kringlukránni var spilað á harmonikku eða píanó og fólk tók undir og söng. Á tímabili voru djasskvöld í miðri viku, stærri danshljómsveitir um helgar og margir af þekktustu hljómlistarmönnum landsins hafa komið og skemmt gestum okkar í gegnum tíðina. Sumir höfðu efasemdir um að Íslendingar myndu höndla bjórinn áður en Alþingi samþykkti að leyfa hann en í dag er komin ágætis bjórmenning,“ segir Sophus Sigþórsson, veitingamaður á Kringlukránni.
Í dag, 1. mars, eru 25 ár frá því bjórlögin tóku gildi. Það voru tímamót á Íslandi og nokkrir nýir veitingastaðir voru opnaðir því samhliða. Þar á meðal var Kringlukráin og tók Sigþór Sigurjónsson við rekstrinum þá um haustið. Sophus sonur hans kom fljótlega inn í fyrirtækið og tók virkan þátt í rekstrinum með honum. Við hlið þeirra hefur Guðmundur Kjartansson framleiðslumaður starfað öll árin og hafa þeir Sophus og Guðmundur séð um og rekið Kringlukrána eftir að Sigþór lést fyrir tveimur árum.
Löwenbräu og Budweiser voru vinsælar tegundir á fyrstu bjórárunum. „Hjá okkur hefur Egils Gull verið vinsælastur og höfum við selt hann frá upphafi. Í byrjun kostaði kanna með hálfum lítra 350 kr. en lengst 590 kr. Eftir hrun breyttist verð á bjór hratt vegna hækkunar áfengisgjalda. Nú kostar kannan 950 kr. En í dag verður hægt að stíga upp í einskonar tímavél hér og kaupa Egils Gull á 25 ára gömlu verði. Annars erum við með nærri 15 tegundir af bjór. Gull Egils er sú vinsælasta en almennt hafa sterkari og bragðmeiri tegundir verið að sækja í sig veðrið,“ segir Guðmundur.
Veitingarekstur er sveiflukenndur, en Kringlukráin hefur lifað. „Meginmálið er að vera trúr sínu og huga að rótunum. Útlit staðarins hefur lítið breyst frá upphafi og svo höfum við verið mjög heppnir með starfsfólk. Í dag leggjum við áherslu á að reka veitingahús en um helgar er hér lifandi tónlist svo fólk geti dansað og skemmt sér,“ segir Sophus.
Frétt mbl.is: Hrakspár rættust ekki