Lögreglu höfuðborgarsvæðisins var á öðrum tímanum í dag tilkynnt um tvo menn sem reyndu að selja skartgripi í Kringlunni. Skömmu síðar var tilkynnt um tvo menn sem voru að stela úr íþróttahúsinu í Safamýri. Reyndist um sömu menn að ræða og fundust á þeim fíkniefni og þýfi. Þeir voru handteknir.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu verður tekin skýrsla af mönnunum þegar af þeim rennur.
Í hádeginu var lögreglu svo tilkynnt um karlmann á Laugavegi sem var að ógna fólki með hníf. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Hann verður yfirheyrður þegar af honum rennur.
Þá var um klukkan 14.30 tilkynnt um sofandi mann í miðbæ Reykjavíkur. Lögreglumenn vöktu manninn en þegar við hann var farið að ræða fundust á honum fíkniefni. Hann var því handtekinn og vistaður í fangaklefa.
Í morgun var svo tilkynnt um bruna í íbúð í Hraunbæ. Eldsvoðinn var minniháttar og leikur grunur á að um íkveikju hafi verið að ræða. Karlmaður var handtekinn á vettvangi og var hann vistaður í fangaklefa.