„Hvernig haldið þið að samningsstaða okkur verði í slíku máli ef niðurstaða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu verði sú að það eigi að halda áfram með samningaviðræður við Evrópusambandið með þessa pólitísku forystu sem við höfum, Sjálfstæðisflokk og Framsókn, sem eru efnislega algjörlega á móti aðild að Evrópusambandinu?“
Þannig komst Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands og fyrrverandi varaformaður samninganefndar Íslands við Evrópusambandið, að orði í útvarpsþættinum Vikulokunum í morgun þar sem rætt var um áform ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna að draga umsóknina um inngöngu Íslands í Evrópusambandið til baka. „Ég held að það hljóti hver að sjá að það er afskaplega sérkennileg staða að þessi ríkisstjórn ætli að ganga til samninga við Evrópusambandið.“
Björg sagði ennfremur að vandinn væri sá að loforð sem gefin væru fyrir kosningar hefðu ákveðið pólitískt skuldbindingargildi en þau væru hins vegar ekki lagalega bindandi. Það væri því engin lagaleg skylda fyrir ríkisstjórnina að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald umsóknarinnar. Við það bættist að jafnvel þótt slíkt þjóðaratkvæði færi fram væri niðurstaða þess aðeins ráðgefandi.
„Þannig að ég tel í raun mjög óheillavænlega þessa hugmynd sem er uppi í raun um að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál. Að mörgu leyti held ég að hún komi fram af kergju út af því hvernig málið ber að, hvernig þessu er skellt fram á sama tíma og verið er að ræða forsendur í skýrslu Hagfræðistofnunar þá er ansi bratt að það komi fram tillaga um að það eigi beinlínis að slíta samningaviðræðum með þeim ómöguleika að það eigi þá bara síðar að ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort það verði byrjað á nýjan leik.“