Verði ekki upp á aðrar þjóðir komnar

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Ljósmynd/Hörður Kristjánsson

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að Íslendingar ætli ekki að vera upp á aðrar þjóðir komnir með matvælaframleiðslu. Á því velti ekki síst grundvöllur sjálfstæðrar þjóðar.

Hann sagði ánægjulegt til að vita að íslenskur landbúnaður sé í sókn en aukinn landbúnaður kalli á hundruð manna í þjónustu þessa atvinnuvegar. „Bændur eru stoltir og íslenska þjóðin er stolt af þeirra verkum.“

Hann sagði það orð fara af Íslendingum að þeir séu framarlega á flestum sviðum. „Við Íslendingar ætlum því ekki að vera upp á aðrar þjóðir komnir með matvælaframleiðslu – en á því veltur ekki hvað síst grundvöllur sjálfstæðrar þjóðar. Við ætlum að sækja fram og á þeim vettvangi er íslenskur landbúnaður ekki undanskilinn,“ sagði Sigurður. 

Samfélagslegt mikilvægi ótvírætt

Í setningarávarpi sínu sagði Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, að samfélagslegt mikilvægi landbúnaðarins væri ótvírætt. Framleiðsluverðmæti greinarinnar í fyrra hefði verið um 62 milljarðar króna.

„Það jafngildir tæpum 170 milljónum á dag, alla daga ársins. Það munar um það. 4.800 störf eru í greininni. Mun fleiri störf eru þó í tengdum greinum sem byggjast á landbúnaðinum eins og afurðastöðvum, sölufyrirtækjum, vélasölum, fóðursölum, dýralæknum og fjölmörgum öðrum sem þjónusta greinina á einn eða annan hátt. Að þeim meðtöldum má áætla að störfin séu nær 12 þúsund,“ sagði hann.

Þrátt fyrir þetta framleiddum við ekki nærri því allan þann mat sem við neyttum. Áætlað hefði verið að um helmingur hans væri fluttur inn. „OECD telur að við flytjum inn matvörur fyrir ríflega 50 milljónir króna á dag, umfram það sem við flytjum út. Það er hærra hlutfall en í mörgum öðrum löndum, því að aðeins 10% matvælaframleiðslunnar á heimsvísu eru seld á milli landa,“ benti hann á.

„Við getum og eigum að sækja þarna fram. Núverandi ríkisstjórn hefur sett sér markmið um að nýta betur þau tækifæri sem í landbúnaðinum felast og áformar að leita leiða til að efla innlenda matvælaframleiðslu. Bændur vilja gjarnan vinna að útfærslu þessara hugmynda með stjórnvöldum og öðrum sem málið varðar,“ sagði hann.

Landbúnaðarverðlaunin afhent í 18. sinn

Þá voru landbúnaðarverðlaunin veitt í átjánda sinn. Að þessu sinni voru verðlaunaþegarnir ábúendur í Fossárdal við Berufjörð, í Friðheimum í Bláskógabyggð og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn í Reykjavík.

Verðlaunagripirnir, steinleirsskúlptúr á stöpli úr íslensku birki, eru hannaðir og unnir af listakonunni Sigríði Helgu Olgeirsdóttur í Hruna.

Kokkakeppni Food & Fun

Búnaðarþingið var formlega sett við hátíðlega athöfn klukkan 12.30 í salnum Silfurbergi í Hörpu í dag. Kokkakeppni matarhátíðarinnar Food & Fun fór fram í kjölfarið í salnum Norðurljósum. Á sama tíma var iðandi mannlíf á matarmarkaði Búrsins, þar sem á fimmta tug smáframleiðenda bjóða fram sínar vörur, að því er segir í tilkynningu.

Þinghaldi Búnaðarþings verður fram haldið í Bændahöllinni sunnudaginn 2. mars og fram á þriðjudaginn 4. mars. 

Frá Búnaðarþinginu í Hörpu í dag.
Frá Búnaðarþinginu í Hörpu í dag. Ljósmynd/Hörður Kristjánsson
Guðný Gréta Eyþórsdóttir og Hafliði Sævarsson bændur í Fossárdal, Knútur …
Guðný Gréta Eyþórsdóttir og Hafliði Sævarsson bændur í Fossárdal, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir í Friðheimum og Tómas Óskar Guðjónsson, forstöðumaður Fjölskyldu- og húsdýragarðsins í Reykjavík ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ljósmynd/Hörður Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert