Fella ekki einhliða niður tolla

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Ákveðin öfl í samfélaginu vilja brjóta niður stuðningskerfi landbúnaðarins og skeyta lítið um það sem tekur við, svo lengi sem þeirra eigin hagsmunum er borgið. Þetta er óábyrg afstaða,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ávarpi á Búnaðarþingi Bændasamtaka Íslands í Hörpu í dag.

Hann sagði að helst hefði mátt skilja á kaupmönnum að hér á landi væru tómar hillur og bara til ein gerð af öllu. „Það er firra og úr öllu samhengi við raunveruleikann,“ sagði hann.

Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum óskaði Hagar eftir því við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að settur yrði opinn tollkvóti án allra gjalda fyrir innflutning á buffala-, geita- og ærmjólkurostum. Því hafnaði ráðuneytið.

Sigurður Ingi sagði að það væri ekkert mál fyrir hvern sem er að flytja inn ost, buffalaost, eða hvaða ost sem er. „Til þess eru ostakvótarnir, bæði á grundvelli WTO og ESB samninga. En það merkilega er að þótt kvóti sé til staðar, flytur verslunin ekki þessa osta til landsins, sem hún þó segir að vanti á markaðinn. Því ekki?“

Tollarnir hluti af landbúnaðarstefnunni

Hann sagði að svarið gæti legið í því að þetta snerist ekki um innflutninginn einan og sér. Þetta snerist um landbúnaðarkerfið í heild sinni.

„Innflutningstollarnir eru hluti af landbúnaðarstefnu Íslands og þeim verður ekki breytt nema til komi sú heildarendurskoðun sem bæði ég og forsvarsaðilar bænda eru sammála um að þurfi að eiga sér stað,“ sagði hann.

Ráðherrann sagði jafnframt að það gengi ekki að opna Ísland án þess að fá eitthvað í staðinn. Þetta væri aðferðafræði sem væri alls staðar viðurkennd. „Tollar eru fyrirbæri sem gagnast framleiðendum í viðskiptum. Ég fæ að selja hjá þér og þú færð í staðinn að selja hjá mér.

Við munum ekki einhliða fella niður tolla á erlenda matvöru á meðan okkar útflutningsvörur, eins og lambakjötið og skyrið, bera tolla þegar við seljum þær til annarra landa,“ sagði hann á Búnaðarþingi.

Frá Búnaðarþinginu í Hörpu í gær.
Frá Búnaðarþinginu í Hörpu í gær. Ljósmynd/Hörður Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert