Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að frjálslynda fólkið sé að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn. Það sé ein af ástæðum þess að fylgi flokksins hafi farið úr 30 til 40 prósentum á síðasta kjörtímabili niður í nítján prósent.
Í þættinum Sunnudagsmorgni með Gísla Marteini fyrr í dag gagnrýndi hún harðlega vinnubrögð ríkisstjórnarinnar varðandi fyrirhuguð viðræðuslit við Evrópusambandið.
Hún sagðist skynja svo að fólk liti þannig á að það vildi ekki að harðlínumenn tækju flokkinn yfir eða að svartstakkar ættu meira í honum en almennir flokksmenn. Hún batt hins vegar vonir við að forysta flokksins myndi bregðast rétt við þeim viðbrögðum sem ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna hefði valdið.
Hún sagði það vera orðhengilshátt að segja að forysta flokksins hefði ekki verið að svíkja kosningaloforð með því að draga aðildarumsóknina til baka. „Fólk vill ekki lengur þessa frekjupungapólitík,“ sagði hún.