Karlmenn eru ráðandi innan tónlistargeirans, konur fengu t.d. einungis 4% af tilnefningum til tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2012. Lára Rúnarsdóttir tónlistarkona segir þetta stundum verða áþreifanlegt.
Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari, sem stýrir Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrst íslenskra kvenna í dag, segir fyrirmyndir vera mikilvægar. „Það er rosalega vont að langa til að gera eitthvað en halda að maður geti það ekki af því að maður sér engan af sínu kyni gera það,“ segir Hallfríður sem segir afar fáar konur fara út í hljómsveitarstjórnun.
KÍTÓN, félag kvenna í tónlist, stendur í dag fyrir dagskrá í Hörpu þar sem tónlist íslenskra kvenna verður í aðalhlutverki. Fram koma tónlistarkonurnar Cell 7, Ellen Kristjáns, Sunna Gunnlaugs, Mammút, Lay Low, Ragga Gröndal, Myrra Rós, Hafdís Huld, VÖK, Ragnhildur Gísladóttir, Greta Salóme og Lay Low sem flytja eigin tónlist. Kapút, Vox feminae, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og Hljómeyki flytja verk eftir Þórunni Grétu, Báru Gríms, Hildigunni Rúnarsdóttur, Jórunni Viðar og Önnu Þorvalds.
mbl.is settist niður með Láru og Hallfríði í vikunni til að spjalla um tónlist kvenna.