Utanríkismálanefnd Alþingis hóf umfjöllun um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um Evrópusambandið á fundi sínum í dag. Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, segir að nefndin hafi fengið til sín sem gesti nokkra af höfundum skýrslunnar, fulltrúa Hagfræðistofnunar, og Ágúst Þór Árnason, sem var höfundur fyrsta viðauka sem fylgdi skýrslunni.
„Við munum halda þeirra umfjöllun áfram á morgun og eiga samræður við Stefán Má Stefánsson og Maximilian Conrad sem báðir skiluðu skýrslum sem eru birtar sem viðaukar með skýrslu Hagfræðistofnunar,“ segir hann.
„Þegar fyrstu umferð í þeirri umfjöllun er lokið munum við innan nefndarinnar taka umræðu um það hvernig við viljum haga framhaldi málsins.“
Þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra þess efnis að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu verði dregin til baka, sem og aðrar tillögur sem komið hafa fram um næstu skref í Evrópumálum, eru enn þá í fyrstu umræðu á þinginu og er því ljóst að þær verða ekki ræddar í utanríkismálanefndinni í þessari viku.