„Þetta er saga manns sem er mjög minnimáttar í samfélaginu og hefur mátt þola alveg ótrúlegar hremmingar í gegnum lífið en fær svo loksins viðurkenningu á rétti sínum á að fá að vera hérna á Íslandi og svo viðurkenningu á því brotið hafi verið á honum,“ segir Katrín Oddsdóttir, lögmaður hælisleitandans Atila Askarpour, sem í síðustu viku voru dæmdar skaðabætur úr hendi íslenska ríkisins vegna ýmissa atriða sem úrskeiðis fóru í meðferð ríkisins á máli hans.
Askarpour kom til landsins hinn 16. maí 2009 og sótti um hæli sem flóttamaður sama dag. Hann var skilríkjalaus við komuna og var því handtekinn og síðar úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald á meðan stjórnvöld öfluðu upplýsinga um hver hann væri. Með dómunum voru honum dæmdar bætur þar sem talið var að varðhaldinu hefði verið markaður of langur tími.
Katrín segir það alvarlegt að flóttamenn séu handteknir við komu sína til landsins vegna falsaðra skilríkja. „Við hneppum fólk í fangelsi fyrir skjalafals ef það kemur með fölsuð vegabréf til landsins en það er oft hluti af flóttanum. Ef þú ert að flýja styrjöld og skelfilegar aðstæður gerir þú hvað sem er til að komast í burtu, þú kaupir þér falsað vegabréf og kemur þér burt. Samkvæmt flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna á ekki að refsa fólki fyrir slíkt, en við gerum það samt. Þetta hefur ítrekað verið bent á,“ segir Katrín.
Í dóminum segir að afdrifaríkasta ákvörðunin sem fór úrskeiðis í meðferð málsins hafi verið að hafna því að taka hælisumsókn hans til efnislegrar meðferðar og senda hann til Grikklands.
Askarpour var sendur til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, sem felur í sér viðmiðanir um það hvaða ríki innan Schengensamstarfsins beri ábyrgð á því að fjalla um umsóknir um hæli. Allar umsóknir um hæli hér á landi eru því skoðaðar með hliðsjón af því hvort öðru aðildarríki sé skylt að fjalla um umsóknina og taka aftur við umsækjanda en sökum landfræðilegrar legu Íslands innan Evrópu er algengt að hælisleitendur sem hingað koma hafi áður sótt um heimild til dvalar í öðrum aðildarríkjum. Askarpour hafði áður sótt um hæli í Grikklandi og var því vísað þangað.
Aðstæður flóttamanna í Grikklandi á þeim tíma sem Askarpour var sendur þangað voru hins vegar bágar og höfðu Flóttamannastofnunin og Rauði krossinn þegar á það bent. „Hann var hnepptur í fangelsi við komuna til Grikklands, en það var nokkuð sem íslensk yfirvöld voru búin að fullyrða að myndi ekki gerast. Þar var hann vistaður í níu fermetra fangaklefa ásamt tólf öðrum hælisleitendum. Hann gat hvorki setið né legið og var bara geymdur eins og dýr í búri. Þetta var alveg fyrirsjáanlegt en íslensk stjónvöld litu viljandi fram hjá þessu.“ Hún segir mál Askarpour ekki vera einsdæmi, því þremur öðrum flóttamönnum var vísað til Grikklands á sama tíma og ekki er vitað hvar tveir þeirra eru niðurkomnir í dag.
Farið var fram á endurupptöku málsins sökum breyttra aðstæðna eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að Belgíska ríkið hefði gerst brotlegt við Mannréttindasáttmála Evrópu með því að senda flóttamann til Grikklands. Í kjölfar þess var Askarpour fenginn aftur til landsins í ágúst 2011 og var honum veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum ári síðar. Íslenska ríkið var dæmt skaðabótaskylt vegna tafa á málsmeðferð. „Það var mjög bagalegt fyrir hann að málsmeðferðin skyldi taka svona langan tíma þar sem hann var illa á sig kominn andlega eftir komuna til landsins.“
Askarpour voru einnig dæmdar bætur vegna ólögmætrar höfnunar á nauðsynlegri heilbrigðisaðstoð, en eftir endurkomuna til Íslands kom í ljós að hann þjáðist af þrálátri sýkingu í ennisholum auk þess sem hann átti við andlega erfiðleika að stríða og var til að mynda vistaður á sjálfsvígsgátt geðdeildar Landspítalans í tvígang.
Ekki var talið réttmætt að hafna umsókn hans um fjárhagslega aðstoð fyrir læknisaðgerð og telur Katrín að dómurinn geti haft áhrif á sambærileg mál að því er varðar heilbrigðisþjónustu fyrir hælisleitendur, þar sem fram að þessu hafi Útlendingastofnun einungis fallist á að veita fjárhagslega aðstoð fyrir „lífsnauðsynlegum“ aðgerðum, en ekki var fallist á það sjónarmið í dóminum.
„Dómurinn mun vonandi hafa þau áhrif að stjórnvöld fari aðeins varlegar þegar kemur að því að senda fólk út í aðstæður sem vitað er að séu ömurlegar og að allar ákvarðanir verði vel ígrundaðar. Þegar kemur að því grundvallaratriði sem mannréttindi eru er ekki í lagi að láta misgóðar afsakanir koma í veg fyrir að fólk njóti slíkra réttinda,“ segir Katrín.