Fjölmenni hefur lagt leið sína í verslun IKEA í Garðabæ í dag til að fá sér saltkjöt og baunir í tilefni sprengidagsins þrátt fyrir að fyrirtækið hafi ákveðið að rukka 995 kr. fyrir veitingarnar í ár. Frá árinu 2009 kostuðu veitingarnar hins vegar tvær krónur, og hafa veitingarnar því hækkað fimmhundruðfalt.
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, segir að fyrirtækið hafi ákveðið að bjóða þetta tilboð í kjölfar efnahagshrunsins og því hafi strax verið mjög vel tekið. Nú hafi IKEA hins vegar ákveðið að rukka hóflegt gjald fyrir matinn.
„Það er búið að vera svakalega fínt að gera,“ segir Þórarinn og heldur áfram: „Það er búið að vera meira en við áttum von á. Við höfum verið með þetta í mörg ár, saltkjöt og baunir á túkall, svo tókum við ákvörðun um að hætta því núna eftir síðasta ár.
Ég átti alveg eins von á því að það yrðu leiðindi [...] en það er búið að ganga alveg ótrúlega vel. Fólk skilur þetta alveg,“ segir Þórarinn ennfremur og bætir við að sem betur fer sé farið að rýmka í veskinu hjá mörgum.
„Það er tvennt sem spilar inn í þetta. Við viljum meina að kreppunni sé í sjálfu sér lokið; það er 30% aukning á bílasölu í febrúar sem segir allt sem þarf að segja. Svo er annað, en í fyrra var þetta komið út í það að fólk kunni sér ekki magamál og át sér til óbóta,“ segir Þórarinn og bætir við að engum sé greiði gerður með því.
Þá segir hann að 995 sé hóflegt gjald. „Það er ekki mikið verð fyrir fulla máltíð og ábót. Þannig að við stígum varlega til jarðar,“ segir hann og bendir á að saltkjöt sé ekki ódýr matur. Á síðasta ári kostaði veislan fyrirtækið um þrjár milljónir króna.
„Með því að vera með þetta í kringum þúsundkallinn er þetta nálægt efniskostnaðinum, myndi ég halda. Þá er þetta orðið að stemningsdæmi sem við viljum endilega hafa.“
Spurður út í rekstur veitingastaðarins segir Þórarinn að markmiðið sé að reksturinn standi undir sér. „Þetta þarf að ganga þannig að maður þurfi ekki að borga með þessu,“ segir hann að lokum.