„Ég var einfaldlega að benda á þá staðreynd að utanríkismálanefnd getur gert tillögur að breytingum sem koma þá til afgreiðslu í þingsal. Við höfum margoft séð slíkt gerast. Ég er ekkert að hafna neinu fyrirfram sem nefndin gæti komist að niðurstöðu um nema það að það sjá allir að það er ekki hægt að greiða atkvæði um það að viðræðunum skuli haldið áfram. Það er ekki raunhæft og tek ég undir orð fjármálaráðherra varðandi það.“
Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is. Hann greindi frá því á facebooksíðu sinni í gær að Ríkisútvarpið hefði tekið viðtal við hann síðastliðinn föstudag en fréttamaðurinn hefði ekki séð ástæðu til þess að geta þeirra ummæla hans að utanríkismálanefnd Alþingis gæti komið með tillögu varðandi þá gagnrýni sem komið hefur fram á þingsályktun hans um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.
Gunnar segir ennfremur í samtali við mbl.is að hann sé ekki sjálfur að leggja einhverjar slíkar breytingar til heldur að benda á þá almennu staðreynd að utanríkismálanefndin geti komið með slíkar breytingatillögur sem síðan yrðu þá ræddar í þinginu.