„Við verðum á einhvern hátt að leysa vanda þeirra ungu og þeirra efnaminni hvað varðar húsnæðisúrræði,“ segir Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar. Hann segir ljóst hver séu grunnstefin í byggingarreglugerðum sem sjaldan sé hvikað frá en þó séu einhver fordæmi fyrir hendi og þá þurfi pólitískan vilja til.
Hugmyndir um að reisa klasa af íbúðum inni í gömlum flutningagámum hafa vakið mikla athygli og margir eru efins um að þetta sé boðleg lausn fyrir íslenskar aðstæður eða komi til með að skapa félagsleg vandamál. Björn segir þó mikilvægt að hafa opinn huga gagnvart lausnum á þeim vanda sem sé til staðar og útilokar ekki einhvers konar tilraunabyggðir í þeim efnum. „Hvernig menn ganga frá því í sambandi við lög og reglugerðir? Það er spurning fyrir pólitíkusa,“ segir Björn.
Lágmarksstærð íbúða hér á landi er 26,5 m² en íbúðirnar sem myndu vera í gámunum eru 27 m² eða tæpir 40 m². Mikil eftirspurn er eftir búsetuúrræðum þar sem leigan er á bilinu 50-100 þúsund krónur á mánuði og mikill fjöldi fólks, hugsanlega þúsundir, leigir lítil ósamþykkt 10 m² herbergi með sameiginlegri bað-, þvotta-, eldhús- og sturtuaðstöðu fyrir 50-70 þúsund krónur á mánuði og hefur sú staða nánast ekkert breyst á undanförnum 10 árum.