Telur ekki rétt að slíta viðræðum

AFP

Stjórn Viðskiptaráðs Íslands telur ekki rétt að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið á þessum tímapunkti líkt og lagt er til í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu utanríkisráðherra.

Í ályktun stjórnarinnar segir að í ljósi þess að hvorugur núverandi stjórnarflokka sé fylgjandi ESB-aðild megi færa rök fyrir þeirri afstöðu að torvelt gæti reynst að halda aðildarviðræðum áfram á þessum tímapunkti. „Þrátt fyrir það telur stjórn Viðskiptaráðs ekki rétt að slíta viðræðunum. Með slíkri ákvörðun væri lokað á mikilvægan valkost í efnahagsmálum, einkum hvað varðar framtíðarskipan peningamála,“ segir í ályktuninni.

Með hliðsjón af þeim miklu hagsmunum sem eru að veði fyrir lífskjör í landinu sé mikilvægt að skerpa betur á þeim valkostum sem í boði eru áður en jafn afdráttarlaus ákvörðun sé tekin.

„Skynsamleg sáttaleið í þessu erfiða máli væri að gera hlé á aðildarviðræðum við ESB til loka kjörtímabilsins í stað þess að slíta þeim. Það er mat stjórnar Viðskiptaráðs að sú leið myndi skapa grundvöll fyrir stjórnvöld til að vinna að uppbyggingu efnahagslífsins næstu þrjú ár í breiðari sátt við aðila vinnumarkaðarins og aðra hagsmunaaðila en ella,“ segir í ályktuninni. 

Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands.
Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands. Mynd/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert