Skýrsla Hagfræðistofnunar um aðildarviðræður við Evrópusambandið var til umræðu á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í gær. Stefán Már Stefánsson og Maximilian Conrad, höfundar viðauka skýrslunnar, voru gestir fundarins. Rætt var meðal annars um möguleika á undanþágum fyrir Ísland.
Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, telur hæpið að undanþágur fáist. „Ég tel persónulega að það sé afar ólíklegt að nokkrar undanþágur sem máli skiptu myndu nást á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Það er himinn og haf milli regluverks ESB á þessu sviði og þeirra sjónarmiða sem Íslendingar þyrftu að setja á oddinn. Þrátt fyrir að finna megi dæmi um afmarkaðar sérlausnir á þröngum sviðum þá sýnist mér regluverk ESB vera þannig úr garði gert að það séu hreinir draumórar að halda því fram að hægt væri að ná fram einhverju sem máli skipti fyrir okkur Íslendinga,“ segir Birgir.
„Þetta var frábær fundur með þessum tveimur sérfræðingum sem komu í dag,“ sagði Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi utanríkisráðherra, í gærkvöldi. „Að mínu viti er öllum efasemdum eytt hvað varðar það að sérlausn er fær samkvæmt Evrópuréttinum, svo fremi sem hún er vel skilgreind og útfærð,“ segir hann.