Tónleikar fyrir hinsegin fólk í Úganda

Páll Óskar Hjálmtýsson er meðal þeirra sem fram koma á …
Páll Óskar Hjálmtýsson er meðal þeirra sem fram koma á tónleikunum í Hörpu í kvöld. Larus Sigurdarson

Ný lög, sem heimila ofsóknir og leggja lífstíðarfangelsi við samkynhneigð, eru um það bil að taka gildi í Úganda. „Nú skiptir öllu máli að alþjóðasamfélagið sýni sterk viðbrögð og að hinsegin fólk í Úganda finni að það sé ekki eitt í heiminum,“ segir í tilkynningu frá Samtökunum '78 sem ásamt Íslandsdeild Amnesty International, með liðveislu öflugs hóps úr röðum tómstunda- og félagsfræðinema við HÍ, hafa tekið höndum saman um söfnunarátak til að styðja við bakið á hinsegin fólki í Úganda á þessum erfiðu tímum í baráttu þess. Verndari átaksins eru Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, og Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistar- og baráttumaður.

Hápunktur átaksins er í kvöld þegar stórtónleikar verða haldnir í Hörpu. Á tónleikunum koma fram Hinsegin kórinn, Sigga Beinteins & Stjórnin, Páll Óskar, Sykur og Retro Stefson auk þess sem Felix Bergsson og Angel Ojara frá Úganda flytja stutt ávörp. Kynnar eru söngleikjaparið Bjarni Snæbjörnsson og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og munu standa í um tvo tíma. Miðaverð er 2.000 kr. og rennur allur ágóði óskiptur til hinsegin fólks í Úganda. Enn er hægt að nálgast miða hjá Hörpu eða á miði.is.

Eigi fólk ekki heimangengt á tónleika getur það styrkt með því að hringja í:

  • 907-1901 fyrir 1000 kr framlag
  • 907-1902 fyrir 2000 kr framlag
  • 907-1905 fyrir 5000 kr framlag
  • Söfnunarreikningur er 513-14-400474, kt. 450179-0439
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert