Búðarhálsstöð, nýjasta aflstöð Íslendinga, var gangsett af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, og Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, við formlega athöfn í dag. Búðarhálsstöð, sem nefnd er svo eftir að virkjunarframkvæmdum lýkur og rekstur hefst, verður nýjasta aflstöð Landsvirkjunar, að því er segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.
Búðarhálsstöð er á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og verður rekin samhliða öðrum aflstöðvum Landsvirkjunar á svæðinu. Uppsett afl hennar er 95 MW og hún framleiðir um 585 GWst af rafmagni á ári inn á orkukerfi landsmanna. Hún er sjöunda stærsta aflstöð Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að framkvæmdirnar við Búðarhálsvirkjun hafi verið til fyrirmyndar í alla staði og vert að geta þess hversu mikil eining hafi verið um framkvæmdina.
„Við hjá Landsvirkjun erum ánægð og hreykin á þessari stundu. Búðarhálsstöð verður 16. aflstöð Landsvirkjunar sem vinnur hreina og endurnýjanlega orku inn á raforkukerfi landsmanna og skapa verðmæti um ókomin ár fyrir eiganda okkar, íslenska þjóð,“ er haft eftir Herði í tilkynningunni.
Þar segir jafnframt að Búðarhálsstöð marki í raun nokkur tímamót í uppbyggingu virkjana á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu en með henni sé virkjað áður ónýtt 40 metra fall vatns í Tungnaá úr frávatni Hrauneyjafossvirkjunar að Sultartangalóni. Þar með sé allt fall vatnsins virkjað sem rennur frá Þórisvatni og alveg niður fyrir Búrfell. Fallið í heild sinni sé 450 metrar.
Lón Búðarhálsstöðvar heitir Sporðöldulón og er myndað með tveimur stíflum. Önnur þverar farveg Köldukvíslar og hin frávatn Hrauneyjafossstöðvar. Frá Sporðöldulóni liggja 4 kílómetra löng jarðgöng sem leiða vatnið undir Búðarháls að inntaki stöðvarinnar.
Þegar mest lét á framkvæmdatímanum störfuðu hátt í 400 manns við byggingu Búðarhálsvirkjunar. Um tvær milljónir vinnustunda fóru í byggingu Búðarhálsvirkjunar, eða um 900 ársverk oft við mjög krefjandi og erfiðar aðstæður.