Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Vörð tryggingar til að bæta hjónum að fullu það tjón sem þau urðu fyrir þegar bifreið var ekið á þau á Lækjargötu í október 2011. Þá ber félaginu að greiða hjónunum rúmar 2,8 milljónir króna í málskostnað.
Bifreiðinni var ekið á hjónin á vestari akrein Lækjargötu, við gatnamót götunnar og Skólabrúar, aðfaranótt sunnudagsins 2. október 2011. Þau höfðu verið í gleðskap og voru undir nokkrum áfengisáhrifum.
Í niðurstöðu dómsins segir að þau hafi farið yfir götuna þar sem ekki er ætlast til að gangandi vegfarendur leggi leið sína. „Fljótlegt hefði verið fyrir þau að fara yfir Skólabrú og síðan yfir Lækjargötu á gangbrautinni, en þar stýra umferðarljós umferð. [...] Þá gættu þau sín ekki á því að tvær akreinar eru á Lækjargötu, en þau höfðu gengið úr skugga um að bifreiðin á hægri akrein hugðist bíða eftir að þau færu yfir.“
Engu að síður var ekki fallist á það með tryggingafélaginu að þau hefðu sjálf valdið slysinu með stórkostlegu gáleysi. Þau hafi ekki gætt allrar varúðar sem unnt var en „fráleitt er að telja að [þau] hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.“
Af þeirri ástæðu var mótbárum tryggingafélagsins hafnað og ekki var tekin afstaða til þess hvort ökumaðurinn eigi sök á slysinu. Hins vegar kom fram að bifreiðinni var ekið á meira en 70 km hraða. „Var því ekið allt of hratt og af því skapaðist veruleg hætta. Er bifreiðin kom að gatnamótunum bar ökumanni að gæta sérstakrar varúðar er hann sá að bifreiðinni á hægri akrein var ekki ekið rakleitt yfir gatnamótin. Hann sinnti því í engu en ók mjög hratt áfram,“ segir engu að síður í niðurstöðu dómsins.