Kröfuhafarnir að bíða eftir ESB-aðild

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

„Höftunum verður aflétt um leið og við sjáum viðunandi niðurstöðu fást í uppgjörum þrotabúa bankanna og lausn á „snjóhengjunni“. Skoðun mín er sú að það gæti gerst mjög hratt. Það veltur á því hvenær menn sætta sig við að samið verði á þann hátt að það réttlæti afnám haftanna,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í viðtali við Frjálsa verslun sem kom út í dag. Hann rifjar upp að hann hafi áður sagt að ekki standi endilega til að birta áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishaftanna enda gæti það þjónað hagsmunum kröfuhafa.

Spurður hvort stjórnvöld séu farin að ræða eitthvað við kröfuhafa bankanna segir Sigmundur að málið hafi verið í biðstöðu alltof lengi vegna þess að þeir hafi alltaf verið að bíða eftir einhverju. „Ég held að þeir hafi verið að bíða eftir því að við gengjum í Evrópusambandið og þeir fengju greitt í evrum. Svo sáu þeir líklega að ekki væri hægt að reiða sig á það, þá vildu þeir bíða og sjá hvort ný ríkisstjórn væri líkleg til að semja við þá, taka lán og borga þá út. Nú sjá menn að það muni ekki gerast og þá færast menn vonandi nær einhverju sem kallast getur raunhæf niðurstaða.“

Eins og slitastjórnir skorti hvatann

Spurður áfram hvort um sé að ræða einhverja mánuði þar til niðurstaða fáist gagnvart kröfuhöfunum segir Sigmundur að það sé allavega hreyfing á málinu. Verðmæti krafna sé að breytast og kröfuhafarnir farnir að þreifa fyrir sér. Það þýði að þeir telji ekki að þeir fái jafnmikið út úr búum gömlu bankanna og þeir hafi gert ráð fyrir. „Kröfuhafarnir eru hugsanlega að átta sig á stöðunni og gætu verið opnari fyrir ásættanlegri niðurstöðu. Hins vegar þurfa slitastjórnirnar að vera tilbúnar að klára dæmið í stað þess að láta það danka. Það er eins og þær skorti hvatann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert