„Við erum að vinna að frumvarpinu og það er á áætlun. Þetta verður lagt fram einhvern tímann á næstu dögum eða næstu vikum. Allavega í þessum mánuði. Þetta miðast fyrst og fremst við að hægt verði að standa við það að hlutirnir geti farið að gerast um mitt ár. Það er áætlunin.“
Þetta segir Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri um framkvæmd höfuðstólslækkunar íbúðalána, í samtali við mbl.is um stöðuna í þeim efnum. Haft er eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra í Frjálsri verslun sem kom út í dag að þessi vinna sé á lokametrunum og málið komi fljótlega til umræðu á Alþingi. Um leið hafi tæknilegur undirbúningur verið í fullum gangi. Meðal annars hönnun sérstaks tölvukerfis.
„Þegar frumvörpin hafa verið afgreidd, sem ég tel að muni ekki taka mjög langan tíma, á ekkert að vera því að vanbúnaði að hefja þennan endurútreikning. Eftir því sem mér er sagt er hann tiltölulega einfaldur í flestum tilvikum,“ segir ráðherrann.
Þegar skuldaleiðréttingaráform ríkisstjórnarinnar voru kynnt fyrir jól kom fram hjá Sigmundi og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra að stefnt væri að því að frumvörp tengd áformunum yrðu lögð fram í byrjun ársins og að hægt ætti að vera að framkvæma skuldaleiðréttinguna um mitt þetta ár.