Engin niðurstaða varð á fundi þingflokksformanna með Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, sem fram fór í dag þar sem rætt var um það hvernig áframhaldandi umræðu um þingsályktun Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið til baka og skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknarinnar yrði háttað.
„Þegar þeir sem eiga að standa fyrir fundi um einhvers konar lausn á deilu láta ekki heyra í sér þá er þetta einhvern veginn á sama stað og í upphafi. Og það er auðvitað á ábyrgð forsætisráðherra,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. Hún segir Sigmund Davíð Gunnlaugsson enn geta boðað til slíks fundar. „En við ætlum bara að bíða róleg og sjá hvort hann brjóti ekki odd af oflæti sínu og hafi samband við okkur.“