Þöggun einkenni átröskun

Fyrirlestur Elínar, sem var fluttur í Þjóðminjasafninu í dag, hét …
Fyrirlestur Elínar, sem var fluttur í Þjóðminjasafninu í dag, hét „Kona sem átti að vera eins og kókflaska í laginu - Mávahlátur og átraskanir“. mbl.is/Jim Smart

Endurspegla átraskanir viðtekna kynbunda hegðun í skáldskap? Þessari spurningu velti Elín Björk Jóhannsdóttir  upp í fyrirlestri sem bar heitið „Kona sem átti að vera eins og kókflaska í laginu - Mávahlátur og átraskanir“.

Elín sem útskrifaðist með MA-próf í almennri bókmenntafræði í lok febrúar fjallaði í erindi sínu um lotugræðgi sem kemur fram í skáldsögunni Mávahlátri eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Elín segir að meðferð sjúkdómsins í verkinu kallist á við þá þöggun sem einkennt hafi átraskanir. Elín varpaði ljósi á tengsl ögunar kvenlíkamans, breyttra neysluvenja og átraskana eins og þau birtast í verkinu. 

Titillinn á erindi hennar er tilvitnun í skáldsöguna. „Það er svona sem Agga þekkir Freyju þegar hún birtist, bæði af ljósmynd og lýsingum kvennanna af konu sem átti að vera eins og kókflaska í laginu. Þannig er hert á þessari tengingu á milli Freyju og bandarískrar neyslumenningar - hún er bókstaflega eins og ein af neysluvörunum,“ segir Elín en fram kom í erindi hennar að átröskun birtist í sögunni sem velmegunarsjúkdómur.

Kvenímynd og neyslusamfélag

Elín bendir á að kvenímyndin og neyslusamfélagið séu áberandi þræðir þegar átraskanir séu skoðaðar. Útbreiðsla sjúkdómanna hafi gjarnan verið tengd við kvenímyndina og mikilvægi hennar í menningunni og einnig verið sett í samhengi við þá staðreynd að konur eyði sífellt meiri tíma í umsjón og ögun líkamans enda sé gífurleg áhersla lögð á að uppfylla ákveðnar kröfur á því sviði.

Fram kom í erindi hennar, að líkami söguhetjunnar Freyju birtist í Mávahlátri sem ómótstæðilegur í augum karlkynsins. Það sé meðal annars í krafti líkama síns sem Freyja standi undir lok bókarinnar með pálmann í höndunum og möguleg ítök í útgerð bæjarins.

„Þetta vekur upp þá spurningu hvort að eina leiðin fyrir konur að komast áfram í feðraveldissamfélagi sé í gegnum líkamann. Það flækir svo verulega málið að þessi eftirsótti líkami Freyju sé til kominn með hjálp átröskunar hennar,“ segir Elín.

Þá segir hún að tengsl tilfinninga og áts séu greinileg hjá Freyju en einnig hjá öðrum persónum í Mávahlátri.

Hún bendir á að samband söguhetjunnar Öggu við mat sé annar af drifkröftum sögunnar því það sé bæði hnýsni hennar og hungur í mat og sætindi sem verði til þess að hún verður vitni að ýmsu sem gerist í þorpinu.

„Hliðstæður Freyju og Öggu í Mávahlátri eru mikilvægar fyrir verkið og þó svo að þær virðist andstæður að flestu leyti veldur breytingin á stöðu Öggu því að munurinn á þeim minnkar til muna. Freyja í Mávahlátri kemst langt innan samfélagsins - meðal annars með því að aga líkama sinn með átröskunum. Hegðun Öggu í lok bókar gefur til kynna að í hennar framtíð verði mögulega sambærileg ögun á þrám líkamans nauðsynleg,“ segir Elín.

Mannát í barnabók

Í MA-ritgerð sinni fjallar Elín um átraskanir sem koma fram í þremur skáldsögum; Mávahlátri eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, Kýr Stalíns eftir Sofi Oksanen og Skaparann eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur.

„Ég hef áður verið svolítið á slóðum líkamans í bókmenntum. Skrifaði BA-ritgerðina mína um mannát í barnabók. Þar var anorexísk persóna sem sýndi þau viðbrögð við mannáti foreldra sinna. Af því að þau fóru yfir þessi hrikalegu mörk þá hættir hún að borða,“ segir Elín en umrædd bók heitir Leyndarmálið hans pabba eftir Þórarin Leifsson.

„Það var kannski byrjunin á þessu, að ég ákvað að taka átraskanir. Svo fannst mér líka vanta umfjöllun um þetta. Það er mikil þöggun sem hefur einkennt þessa sjúkdóma og við þekkjum ótrúlega marga sem hafa glímt við þetta, þó að það sé mismikið opið og tala um þetta. En mig langaði líka til þess að skoða hvernig væri tekist á við þetta í skáldskap, af því að skáldskapurinn er að takast á við veruleika okkar. Þetta er hluti af honum, og þá sérstaklega kvenlægum veruleika,“ segir hún.

Varhugaverður hluti af dægurmenningu nútímans

Aðspurð segir Elín að þetta umfjöllunarefni skjóti upp kollinum víða í bókmenntum en einnig í bandarískri dægurmenningu. „Þá er ótrúlegt í hvaða sjónvarpsþáttum þetta kemur fram; oft á hátt þar sem ekki er verið að vinna með það, en þetta er partur af unglingaheiminum. Oft sett þannig inn,“ segir Elín og bætir við að efnið sé reglulega fram sett á þann máta að ekki sé raunverulega verið að kljást við það.

„Ég held að þessi þöggun - þó að þetta sé að birtast svona - sé hættuleg. Því þú getur haft þetta sem hluta af söguþræðinum í þessum sjónvarpsþáttum. En ef þú ert ekki að kljást við það og ef persónurnar kljást ekki við það - ef þetta er bara sett fram sem einhver eðlilegur hluti af tilveru unglingsins - þá er það stórhættulegt,“ segir Elín og bætir við að þetta sé hluti af þeirri neyslumenningu sem birtist okkur í dægurmenningu nútímans, sem sé mögulega varhugaverð.

Elín Björk Jóhannsdóttir, MA í almennri bókmenntafræði.
Elín Björk Jóhannsdóttir, MA í almennri bókmenntafræði.
Skáldsagan Mávahlátur kom út árið 1995. Samnefnd kvikmynd, í leikstjórn …
Skáldsagan Mávahlátur kom út árið 1995. Samnefnd kvikmynd, í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar, var frumsýnd árið 2001. Hér sést leikkonan Margrét Vilhjálmsdóttir í hlutverki sínu sem Freyja.
Leikkonurnar Margrét Vilhjálmsdóttir og Ugla Egilsdóttir sjást hér á frumsýningu …
Leikkonurnar Margrét Vilhjálmsdóttir og Ugla Egilsdóttir sjást hér á frumsýningu kvikmyndarinnar ásamt rithöfundinumKristínu Marju Baldursdóttur. mbl.is/Jim Smart
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert