Gunnar vann í fyrstu lotu

Gunnar Nelson.
Gunnar Nelson.

Bardagakappinn Gunnar Nelson vann í kvöld öruggan sigur á Rússanum Omari Akhmedov í fyrstu lotu. Bardaginn fór fram í O2-höllinni í Lundúnum.

Gunnar náði yfirhöndinni strax í byrjun og lét olnbogana dynja á andlit Rússans eftir að hafa náð honum niður. Loks náði hann hálstaki á Akmedov og voru leikar stöðvaðir þegar aðeins rétt rúmar fjórar mínútur voru liðnar af fyrstu lotu. 

Þetta var í þriðja sinn sem Gunnar barðist í UFC en hann er enn ósigraður í blönduðum bardagalistum, MMA. Hann hefur ellefu sinnum borið sigur úr býtum og aðeins gert eitt jafntefli. Rússinn hefur unnið tólf bardaga en tapað einum. 

Þetta var fyrsti bardagi Gunnars í rúmt ár en hann hefur átt við meiðsli að glíma. Hann vann seinast frækinn sigur á Brasilíumanninum Jorge Santiago á Wembley-leikvanginum í Lundúnum um miðjan febrúarmánuð í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert