Talið er að um tvö þúsund manns hafi tekið þátt í samstöðufundi á Austurvelli í dag til að mótmæla aðgerðum ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Ræðumenn á fundinum voru þeir Ólafur Stefánsson, handboltaþjálfari og fyrrverandi landsliðsmaður, Jón Kalman Stefánsson rithöfundur og Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu.
Ljósmyndari mbl.is var á staðnum.
Hópurinn sem stendur fyrir fundinum skipulagði samskonar samstöðufund síðasta laugardag og mættu þá á bilinu 7-8.000 manns. Krafa samstöðufundanna er að hætt verði við að draga til baka aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og að kosið verði um áframhald aðildarviðræðna eins og var lofað í aðdraganda kosninganna.