Vilja að Íslandi verði refsað

mbl.is/Eggert

Vaxandi kröfur eru innan Evrópusambandsins um að Íslendingar og Færeyingar verði beittir refsiaðgerðum af hálfu sambandsins eftir að úrslitatilraun til þess að finna lausn á makríldeilunni vegna veiða á þessu ári rann út í sandinn síðastliðinn miðvikudag. Þetta kemur fram á fréttavefnum Fishupdate.com í gær. 

Fram kemur að Ian Gatt, framkvæmdastjóri Samtaka skoskra uppsjávarsjómanna, hafi sakað íslensk og færeysk stjórnvöld um að nálgast makríldeiluna með óraunhæfum og ósveigjanlegum hætti. Hann hafi kallað eftir því að Evrópusambandið beitti löndin tvö refsiaðgerðum sem væru til þess fallnar að skila árangri og ennfremur að koma í veg fyrir að Ísland gæti gengið í sambandið.

„Evrópusambandið verður að standa vörð um réttindi ríkja sinna,“ er haft eftir Gatt. Ennfremur segir í fréttinni að allar líkur séu á að norskir sjómenn deili sjónarmiðum hans. Þá er haft eftir Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, að það séu vonbrigði að viðræðurnar um makrílinn hafi ekki skilað árangri. Norðmenn hafi teygt sig langt og erfitt sé að skilja hvers vegna ekki náðist niðurstaða.

Fram kom í frétt Fishupdate.com í fyrradag að sú staðreynd að ekki hefði tekist að finna lausn á makríldeilunni ýtti undir vangaveltur um hugsanlegar refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum. Einhver ríki Evrópusambandsins gætu krafist þess að slíkar aðgerðir næðu ekki aðeins til makríls heldur einnig til að mynda til þorsks og ýsu sem aftur gæti haft afleiðingar fyrir Bretland í ljósi þess að hafnarbæir eins og Grimsby væru mjög háðir slíku hráefni frá Íslandi til fiskvinnslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert