Brotin ekki bundin við landamæri

Arnar Jensson, yfirlögregluþjónn og tengifulltrúi Íslands hjá Europol.
Arnar Jensson, yfirlögregluþjónn og tengifulltrúi Íslands hjá Europol. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Meira ferðafrelsi og opnun landamæra í Evrópu hefur fært alþjóðlegum glæpahópum aukin tækifæri til þess að stunda iðju sína sem og aukið frelsi á sviði fjármagnsflæðis, vöruflutninga og þjónustu. Rétt eins og þessi þróun hefur aukið möguleika heiðarlegra alþjóðafyrirtækja. Með auknu ferðafrelsi og niðurlagningu landamæraeftirlits geta yfirvöld ekki fylgst eins náið með ferðalögum fólks sem glæpahóparnir notfæra sér.

Þetta segir Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn, en hann hefur starfað sem tengifulltrúi Íslands hjá Europol frá árinu 2006. Hann lætur af því starfi 1. júlí næstkomandi og í tilefni af því tók mbl.is hann tali. Arnar segir að svarið við þessari þróun sé þó ekki að koma aftur á höftum á fjármagnsflæði, vöruflutninga og þjónustu eða loka landamærum heldur sé það fólgið í aukinni samvinnu milli löggæsluaðila og ríkja svo og samtengingu og greiningu upplýsinga um glæpastarfsemina á svæðinu. Grípa þurfi til ýtrustu úrræða við ákveðnar aðstæður en það eigi þó ekki að vera reglan. Það sé í öllu falli of seint enda alþjóðavæðingin staðreynd sem þurfi að laga sig að.

Þú hefur starfað sem tengifulltrúi Íslands hjá Europol frá árinu 2006. Í hverju felst þetta starf nákvæmlega? Hefur það tekið breytingum þann tíma sem þú hefur gegnt því?

„Starfið felst aðallega í að sinna tengslum á milli íslenskra löggæsluaðila, Europol eða fulltrúa annarra ríkja sem eru með skrifstofur þar. Þau tengsl geta falist í miðlun upplýsinga, þátttöku í eða samræmingu alþjóðlegra rannsókna og lögregluaðgerða en ekki síst uppbyggingu trausts og trúnaðar á milli íslensku löggæslunnar og þeirra ríkja sem eiga fulltrúa hér. Flestar íslenskar rannsóknir sem hafa alþjóðlegar hliðar hafa tengst skrifstofunni hér og án hennar hefði verið útilokað að ná árangri í sumum þeirra.

Ísland gerði samstarfssamning við Europol árið 2001 en það var ekki fyrr en 1. janúar 2007 að við opnuðum tengslaskrifstofu í aðalstöðvum Europol í Haag í Hollandi. Mér var boðið að setja upp þessa skrifstofu og byggja starfið upp en starfstíma mínum mun ljúka um mitt þetta ár og þá tekur Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, við sem tengifulltrú Íslands á þessum vettvangi. Europol er löggæslustofnun ESB en á grundvelli Schengen-samningsins gerði Ísland samstarfssamninginn við stofnunina.

Hjá Europol starfa um 600 manns en þar að auki eru um 40 ríki með tengslaskrifstofur í höfuðstöðvunum í Haag þar sem um 150 tengifulltrúar starfa. Stofnunin er í raun milliríkjastofnun þar sem fulltrúar allra þessara ríkja mætast og takast á við verkefni sem eitt eða tvö ríki myndu ekki ráða við. Starfsmenn stofnunarinnar hafa ekki lögregluvald heldur eru þeir til aðstoðar við löggæsluaðila í hverju ríki fyrir sig.

Á þeim rúmlega sjö árum sem ég hef starfað hér hefur starfið sjálft ekki breyst svo mikið en glæpavettvangurinn, brotahóparnir og aðferðir þeirra hafa breyst mikið. Þar má helst nefna alþjóðavæðingu glæpastarfseminnar, aukna sérhæfingu og þar með aukna samvinnu glæpahópa svo og að vettvangur alvarlegrar og alþjóðlegrar brotastarfsemi hefur að verulegu leyti færst inn í hinn óáþreifanlega heim internetsins. Aukið frelsi á sviði vöruflutninga, viðskipta, fjármagnsflutninga og ferða fólks hefur gefið alþjóðlegum glæpahópum nýja möguleika og nýjar leiðir, rétt eins og heiðarlegum alþjóðafyrirtækjum.

Eina svarið við þessari þróun er skipulögð, alþjóðleg samvinna og miðlun upplýsinga. Í dag hafa öll ríki í Evrópu áttað sig á hversu mikill ávinningur er af því að hafa t.d. aðgang að miðlægum gagnagrunnum um brotastarfsemi í Evrópu eins og við höfum í gegn um tengslaskrifstofuna hjá Europol. Tengifulltrúi Íslands hjá Europol hefur aðgang að öllum miðlægum gagnagrunnum og greiningartækjum sem stofnunin hefur svo og aðgang að upplýsingaskrám allra ríkjanna 40 í gegn um tengifulltrúa þeirra á staðnum. Þessi staða hefur algerlega skipt sköpum í mörgum íslenskum rannsóknum með alþjóðlegar tengingar.“

Hverjar myndirðu segja að væru helstu ógnirnar sem steðja að Evrópu í dag þegar kemur að alþjóðlegri glæpastarfsemi? Er hægt að segja að einhver ein slík standi upp úr í þeim efnum umfram aðrar?

„Europol dregur saman upplýsingar frá öllum samstarfsríkjum og gerir heildstæða greiningu á hverju ári á helstu ógnum í Evrópu á sviði alvarlegrar glæpastarfsemi. Á grundvelli þeirra greininga er síðan forgangsraðað m.t.t. fjármagns, starfsmanna og annarra úrræða, svo og gerðar aðgerðaáætlanir til að mæta þessum ógnum. Við njótum þessarar þjónustu og íslensk löggæsluyfirvöld hafa að hluta til stuðst við þessa evrópsku forgangsröðun og tekið þátt í einstökum aðgerðaáætlunum gegn einstökum glæpahópum. Næstu misseri verður sérstaklega horft til níu brotasviða og sameiginlegar áætlanir hafa verið gerðar til að takast á við þau.

Þessi níu skipulögðu brotasvið eru: Mansal, glæpastarfsemi í málefnum ólöglegra innflytjenda, framleiðsla og dreifing heróíns og kókaíns, framleiðsla og dreifing á sviði örvandi efna (synthetic drugs), vörumerkjafalsanir og dreifing á ólöglega framleiddum vörum (áhersla á lyf, hættuleg efni og matvöru), smygl á vopnum, tollsvik og virðisaukaskattsvik, rán og þjófnaðir „farand-glæpahópar“ og tölvubrot og netglæpir (netárásir, svikastarfsemi og kynferðisleg misnotkun á börnum).

Engum þessara flokka er gert hærra undir höfði en öðrum þrátt fyrir að mesta áherslan að undanförnu hafi verið á tölvubrot og netglæpi. Í upphafi þessa árs tók ný stofnun til starfa innan Europol, European Cybercrime Centre, til að mæta þeim nýju ógnum sem netbrotin hafa í för með sér. Gerðir hafa verið samstarfssamningar við leiðandi háskóla og fræðimenn, ýmis alþjóðleg netþjónustufyrirtæki og sérfræðinga á sviði netöryggis og ráðnir hafa verið fjölmargir nýir starfsmenn með sérmenntun og sérfræðiþekkingu á tölvu- og netmálum.

Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og nýlega brutu sérfræðingar Europol og FBI niður falin vefkerfi, svokölluð TOR-kerfi, sem var gríðarlega stór vettvangur fyrir kynferðislega misnotkun á börnum um allan heim. Þetta var í fyrsta skipti sem löggæsluaðilum hefur tekist að taka niður slík kerfi án þess að notendur hafi áttað sig á því, sem gerði kleift að finna og leggja hald á netþjónana og handtaka stjórnendur kerfanna. Með þátttöku okkar í Europol-samstarfinu höfum við fullan aðgang að stuðningi og sérfræðiþjónustu sem European Cybercrime Centre býður upp á. 

Á undanförnum 10-15 árum hefur glæpastarfsemi á Íslandi tengst alþjóðlegri brotastarfsemi í vaxandi mæli sem hefur kallað á aukna samvinnu við nágrannalönd og alþjóðastofnanir eins og Europol. Sú þróun mun halda áfram og íslensk löggæsluyfirvöld þurfa að gera ráðstafanir á öllum sviðum til að mæta henni, m.a. á sviði lagasetningar, milliríkjasamninga, menntunar og þjálfunar starfsfólks, skipulags og samvinnu á milli innlendra stofnana og við erlenda samstarfsaðila. Lykillinn liggur að mínu mati í samvinnu, miðlun og greiningu upplýsinga, þjálfun og menntun svo og marghliða nálgun. Með marghliða nálgun á ég við að opinberar stofnanir vinni saman og njóti aðstoðar annarra stofnana og einkaaðila við að takast á við alvarlega, skipulagða brotastarfsemi.

Annar mikilvægur þáttur í baráttunni við skipulagða brotastarfsemi er að beina spjótunum að fjárhagslegum ávinningi, finna hann og gera hann upptækan. Það sýnir sig að í þeim ríkjum þar sem lagaheimildir eru víðtækar og samvinna allra aðila er góð hefur árangurinn verið mestur. Þar vinna t.d. lögreglan, tollyfirvöld, skattyfirvöld, félagsmálayfirvöld, sveitarfélög og fjármálastofnanir saman þegar kemur að því að finna, rekja og leggja hald á fjárhagslegan ávinning og krefjast upptöku hans. Þetta þurfa Íslendingar að taka upp en á þessu sviði erum við að mínu mati stutt komin í samanburði við nágrannaríkin.“

Meðal þess sem rætt hefur verið um í tengslum við alþjóðlega glæpastarfsemi er það að aukið ferðafrelsi í Evrópu hafi auðveldað slíka starfsemi. Hvað geturðu sagt mér um það?

„Það er engin spurning að aukið ferðafrelsi og opnun landamæra færir glæpamönnum aukin tækifæri. En að sama skapi hefur aukið frelsi á sviði fjármagnsflæðis, vöruflutninga og þjónustu skapað nýjan vettvang og möguleika fyrir skipulagða glæpastarfsemi. Ef við skoðum virðisaukaskattssvik í þessu samhengi þá er talið að Evrópuríkin verði af a.m.k. 40 milljörðum evra á ári vegna svikastarfsemi á vegum alþjóðlegra skipulagðra glæpahópa sem setja upp sýndarviðskipti eða sýndarvöruflutninga á milli ríkja til að svíkja út virðisaukaskatt. Slíka starfsemi eru skipulagðir glæpahópar farnir að stunda í vaxandi mæli þar sem þeir telja þetta vera áhættuminni starfsemi en t.d. fíkniefna- eða vopnasmygl en gefur samt ríkulegan fjárhagslegan ávinning.

Annað dæmi um afleiðingar af auknu frelsi á sviði vöruflutninga eru vörumerkjafalsanir, sérstaklega á sviði lyfja og matvöru. Skipulagðir glæpahópar nota þekkingu, smyglleiðir, tengslanet og sambönd til að flytja ólöglega framleidd lyf og matvöru t.d. frá Asíu inn á EES-svæðið þar sem varan er sett í nýjar falsaðar umbúðir með viðurkenndum vörumerkjum. Henni er síðan dreift á EES-svæðinu og seld á margföldu verði en ávinningurinn gerir glæpasamtökunum kleift að víkka út starfsemi sína á öllum sviðum glæpa. Með auknu ferðafrelsi og niðurlagningu landamæraeftirlits missa yfirvöld möguleikann á að fylgjast eins náið með ferðalögum fólks sem glæpahóparnir nýta sér að sjálfsögðu.

Svarið við þessari þróun er að mínu mati ekki fólgið í að bakka tugi ára aftur í tímann með höftum í fjármagnsflæði, vöruflutningum og þjónustu eða loka landamærum heldur er svarið fólgið í aukinni samvinnu milli löggæsluaðila og ríkja svo og samtengingu og greiningu upplýsinga um glæpastarfsemina á svæðinu. Auðvitað þarf að grípa til ýtrustu úrræða í einstökum tilvikum en það á ekki að vera aðalreglan og jafnvel þótt við vildum loka okkur af er það bara einfaldlega orðið of seint, alþjóðavæðingin með öllum sínum kostum og göllum er einfaldlega staðreynd sem við þurfum að sníða okkur að.

Brotavettvangur er ekki lengur bundinn við stað eða landamæri. Skipulagðir glæpahópar starfa eins og alþjóðafyrirtæki í leit að tækifærum. Fjárhagslegur ávinningur og áhætta eru mælikvarðarnir, ekki staðir, borgir, svæði eða ríki. Þrátt fyrir að Europol hafi ekki tekið til starfa fyrr en árið 1999 og sé því mjög ung stofnun hefur margoft komið í ljós að í milliríkjasamstarfi á sviði löggæslumála er náin samvinna, miðlun upplýsinga og miðlæg greining besta svarið.“

Höfuðstöðvar Europol í Haag í Hollandi.
Höfuðstöðvar Europol í Haag í Hollandi. Wikipedia/Pikachu
Starfsmaður hjá European Cybercrime Centre, stofnunar sem starfar innan Europol.
Starfsmaður hjá European Cybercrime Centre, stofnunar sem starfar innan Europol. AFP
Starfsmaður Europol við hluta af fölsuðum varningi sem gerður var …
Starfsmaður Europol við hluta af fölsuðum varningi sem gerður var upptækur í vöruskemmu í Póllandi 2012. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert