„Hakuna matata“ orð að sönnu

Vilborg Arna með Kilimanjaro í baksýn
Vilborg Arna með Kilimanjaro í baksýn Mynd/Vilborg Arna

„Ég hef upplifað margt á þessu ári sem ég hef ferðast um heiminn og klifið fjöll. Reynslan af mismunandi aðstæðum hefur kennt mér margt sem engin skólabók getur kennt mér. Alstaðar sem ég hef komið hefur mér verið vel tekið af heimamönnum en ég viðurkenni fúslega að sú fátækt og misrétti sem ég hef séð situr í mér og hefur virkilega fengið mig til þess að hugsa,“ segir Vilborg Arna Gissurardóttir en hún komst í vikunni á topp fjallsins Kilimanjaro í Tansaníu. Tindurinn er sá sjötti sem Vilborg klífur á undanförnum mánuðum en hún á nú aðeins einn tind eftir í sjö tinda leiðangri sínum, Mount Everest. 

Auðveldasti tindurinn sem má þó ekki vanmeta

„Kilimanjaro telst vera auðveldasti tindurinn af þeim sjö sem ég er að stefna á að klífa. Það er vegna þess að veðurfar er almennt gott og fjallið er ekki tæknilega erfitt,“ segir Vilborg en notast er við burðarmenn og aðra þjónustu í leiðangrinum. „Aftur á móti er fjallið talsvert hátt og auðvelt er að verða hæðarveikur á fjallinu en það hefur einmitt orðið mörgum að falli.  Aldrei má vanmeta fjöll fyrir það eitt að vera ekki tæknilega erfið og númer eitt, tvö og þrjú er að bera virðingu fyrir aðstæðum og haga sér samkvæmt því. Okkar hópur kleif fjallið Meru (4566 m) sem aðlögunartind fyrir Kilimanjaro. Það varð til þess að við komumst upp öll sem eitt án teljandi vandræða þó auðvitað hafi borið á smávægilegum hæðaróþægindum.“

Fjölskyldumatarboð með innfæddum

Vilborg segir að henni hafi verið tekið vel í Afríku og að hún hafi gott samband við innfædda í landinu. „Á fjallinu eignaðist ég vin sem er úr Maasai-þjóðflokknum og eins er ég að fara í fjölskyldumatarboð í dag hjá yfirleiðsögumanni leiðangursins. Við Ingvar kvikmyndatökumaður fórum svo í gær og fengum í gegnum góð tengsl að heimsækja Maasai-fjölskyldu og kynnast þorpinu og lífsháttum þeirra. Sú upplifun er ógleymanleg enda lifa þeir í strákofum og nærast einungis á takmörkuðum dýraafurðum. Ég fékk að dansa með konunum í hópnum og var skreytt að hætti þeirra.“

50 börn styrkt af Íslendingum í Arusha

Í dag heimsótti Vilborg SOS barnaþorp en hún hefur á ferðalögum sínum heimsótt þorpin um allan heim. „Þar skoðaði ég aðstæður og fékk að kynnast daglegu lífi barnanna. Einnig sendi ég þeim myndir úr ferðalögum mínum og þau fengu að spyrja spurninga í kjölfarið. Í þorpinu í Arusha eru um 50 börn sem eru styrkt af Íslendingum og tókum við myndir af þeim öllum og þau senda þakklætiskveðjur til velunnara sinna. Þegar maður heimsækir svona staði verður maður hálfklökkur yfir öllu því góða starfi sem þar er unnið.“ 

Ekki verður hjá því komist í svona ferð að læra helstu túristaorðin á tungumálinu svahílí sem talað er á svæðinu þar sem Vilborg dvelur. „Ég hef lært orð sem ég hef þurft að nota eins og pole pole sem þýðir hægt og jambo sem þýðir hæ. Uppáhaldið mitt er þó Hakuna matata sem flestir þekkja úr Lion King og þýðir ekkert mál en það er mjög lýsandi fyrir viðhorfið sem þarf að hafa að leiðarljósi í svona ferð,“ segir Vilborg. 

Frægasti tindur veraldar næstur á dagskrá

Næsta fjall á dagskrá Vilborgar er síðasti tindurinn í leiðangrinum, sjálfur Everest-tindur. Vilborg segist bera mikla virðingu fyrir fjallinu.  „Ég er mjög vel stemmd og spennt fyrir Everest en auðvitað blundar í manni stress enda margt sem þarf að ganga upp á þeim stutta tíma sem ég er heima á milli ferða. Everest er búið að vera draumur í mörg ár og virðingin fyrir fjallinu er óendanleg en ég vona að reynslan úr síðustu fjallaferðum vinni með mér og hjálpi mér í þeim aðstæðum sem ég á eftir að takast á við,“ segir Vilborg að lokum.

Á toppi Kilimanjaro, í 5895 m hæð
Á toppi Kilimanjaro, í 5895 m hæð Mynd/Vilborg Arna
Börnin í SOS barnaþorpum sem styrkt eru af Íslendingum stilla …
Börnin í SOS barnaþorpum sem styrkt eru af Íslendingum stilla sér upp fyrir myndavélina ásamt Vilborgu Mynd/Vilborg Arna
Mynd/Vilborg Arna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert