Eingöngu einn karlkyns leikmaður í efstu deild í hópíþrótt hér á landi hefur greint frá samkynhneigð sinni opinberlega. Önnur lögmál virðast gilda um íþróttakonur að þessu leyti því fjöldi þeirra hefur opinberað samkynhneigð sína.
Handknattleikskonan Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir telur að búið sé að ryðja brautina betur í þessum málaflokki kvennamegin en hjá körlunum. „Ef eitthvað er fannst mér auðveldra að koma út úr skápnum innan íþróttahreyfingarinnar en úti í samfélaginu. Þetta er þéttur hópur innan kvennahandboltans og þar þekkja allir alla. Það ríkir ekki jafnmikil þöggun um þetta og hjá körlunum,“ segir Ólöf en hún leikur með liði HK í Kópavoginum.
Daníel Örn Einarsson, handknattleiksmaður hjá KR, segir fordóma og fáfræði enn til staðar innan íþróttahreyfingarinnar. „Ég finn ekki fyrir beinum fordómum í minn garð vegna samkynhneigðar minnar en ég finn enn fyrir óbeinum fordómum. Ég hef t.d. heyrt útundan mér hvernig handboltamenn leyfa sér að tala um mig þegar ég er ekki nærri og ef þeir þekkja mig ekki persónulega.“
Daníel segir marga íþróttamenn taka hann út fyrir rammann með því að skilgreina hann eingöngu út frá kynhneigð en ekki öðrum eiginleikum.
„Ég er t.d. ávallt þekktur sem Danni hommi á meðan Ólöf Kolbrún er þekkt sem Kolla markmaður. Þetta er merki um muninn sem er við lýði á milli kynjanna og það er greinilega miklu minna pælt í þessu kvennamegin en karlamegin. Það er eins og fólk telji homma í íþróttum ekki passa inn í hugmyndir um staðalímyndir þar sem íhaldsemi er enn ráðandi í hugsunarhætti hins karllæga íþróttasamfélags..“
Ólöf Kolbrún tekur í sama streng og segir fordóma sýnilegri hjá íþóttakörlum en íþróttakonum. „Íþróttamenningin er svo karllæg að ef stelpur eru góðar í fótbolta er oft talað um þær sem strákastelpur. Ég fékk strax viðurkenningu, fann ekki fyrir breyttu viðhorfi í minn garð og þurfti ekki að berjast fyrir tilverurétti mínum innan íþróttarinnar. Þá er orðið lessa ekki notað með sama niðrandi hætti og strákar nota orðið hommi,“ segir Ólöf.
Daníel telur að menning í kringum íþróttaiðkun karla hafi setið á eftir almennri þróun í samfélaginu síðustu ár. „Það hefur orðið mikil vakning úti í samfélaginu varðandi samkynhneigð á síðustu árum en íþróttahreyfingin karlamegin hefur ekki alveg fylgt þessu eftir. Það ríkir meiri íhaldssemi og þöggun innan íþróttahrefingarinnar og þar er þröngsýnt viðhorf leyfilegra og viðurkenndara,“ segir Daníel.
Hann hefur þurft að sanna sig með því að rífa kjaft og berjast en samt finnur hann fyrir því viðhorfi að hann sé álitinn í lagi þar sem hann er ekki eins og „hinir hommarnir“. Hann telur fordómana liggja fyrst og fremst í því að nýir liðsfélagar hans haldi að hann sé mjög frábrugðinn öðrum vegna kynhneigðar sinnar. „Ráðandi íhaldssöm menning gerir það að verkum að fólk veit ekki hvernig það á að haga sér og sumir handboltamenn virðast halda að ég gangi afturábak í bleikum háhæluðum skóm áður en þeir kynnast mér.“
Daníel segir stráka úr öðrum íþróttagreinum hafa sett sig í samband við sig og lýst yfir áhyggjum yfir því að koma út úr skápnum innan íþróttahreyfingarinnar. Þá þekkir hann einnig dæmi þess að samkynhneigðir strákar hrökklist úr íþróttum sökum kynhneigðar sinnar. „Auðvitað viltu umgangast fólk þar sem þú getur leyft þér að vera þú sjálfur og þar af leiðandi leiðast margir efnilegir samkynhneigðir íþróttamenn inn á aðrar brautir í lífinu.“
Bæði Ólöf og Daníel telja fjölmarga samkynhneigða karlkyns íþróttamenn vera í felum hér á landi. „Ég efast ekki um það og íhaldssöm menning íþróttahreyfingarinnar karlamegin gerir það að verkum að þeir virðast ekki treysta sér til að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir,“ segir Ólöf.
Daníel hvetur alla samkynhneigða til að lifa lífinu í sátt við sjálfan sig hvort sem þeir sinna íþróttum eða ekki. „Það væri að sjálfsögðu mun skemmtilegra á lokahófinu hjá mér ef það væru fleiri samkynhneigðir handboltamenn á svæðinu og því kalla ég bara eftir fleiri hommum í handboltann,“ segir Daníel og hlær.