Katrín Olga Jóhannesdóttir, sem var fulltrúi í bankaráði Seðlabanka Íslands þegar málarekstur Más Guðmundssonar seðlabankastjóra gegn bankanum fór fram, segir að Seðlabankinn hafi aldrei upplýst bankaráðið um að hann ætlaði að borga málskostnað Más.
„Ég held að það sé ansi langsótt að ætla að sá aðili sem sótt er á greiði málskostnað þess sem sækir, þó svo að hann tapi málinu,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu ákvað fyrrverandi formaður bankaráðsins, Lára V. Júlíusdóttir, að bankinn skyldi greiða málskostnað Más. Hún sagði í yfirlýsingu að það hefði verið eina leiðin til að fá úr málinu skorið. „Það var ekki síður hagsmunamál Seðlabankans sjálfs að fá úr þessu skorið en þess einstaklings sem á hverjum tíma gegnir embætti seðlabankastjóra,“ sagði hún.
Í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun sagði Már að hann hefði ekki áfrýjað dómi héraðsdóms um launamál sín til Hæstaréttar ef hann hefði ekki notið atbeina Seðlabankans. Annars hefði hann látið málið niður falla.
Nauðsynlegt hefði verið, að mati bæði formanns bankaráðsins, Láru, og hans sjálfs, að fá niðurstöðu í málið.
Athygli vekur að Seðlabankinn sóttist eftir því fyrir dómi á báðum dómstigum að Már greiddi málskostnað bankans. Lára sagði að það væri eðlileg krafa sem væri höfð uppi í öllum dómsmálum.
Katrín Olga segir að Lára hafi upplýst bankaráðið um framgang málsins en að það hafi aldrei verið rætt innan ráðsins að bankinn ætti að borga allan málskostnaðinn.
Hún bætir því við að það hafi komið fulltrúum í bankaráðinu spánskt fyrir sjónir þegar Már ákvað upphaflega að höfða mál gegn bankanum. „Það hvarflaði ekki að neinum að spyrja hvort bankinn myndi greiða þennan málskostnað.“
Björn Herbert Guðbjörnsson, sem sat einnig í bankaráðinu á þessum tíma, vildi ekki tjá sig um málið við mbl.is.