Bólusettu börnin eru landverðir

Haraldur Briem sóttvarnalæknir.
Haraldur Briem sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ekki er vitað til þess að mislingarnir sem bárust hingað til lands með ungu barni í síðustu viku hafi smitast víðar. Helst var talin hætta á að smitið hefði borist til annarra óbólusettra barna á Barnaspítalanum.

„Nú bara krossum við fingur og vonum að við fáum ekki fleiri tilfelli,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. „Það getur auðvitað gerst, en það verður ekki neitt stórt, það held ég að geti ekki verið.“

Landspítalinn hefur haft samband við foreldra óbólusettra barna sem gætu hafa smitast og boðið þeim nauðsynlega þjónustu og ráðleggingar.

Ferðalög og fólksflutningar auka hættuna

Haraldur bendir á að bólusetningar séu samfélagslega mikilvæg aðgerð. „Ég vil nú kalla bólusettu börnin okkar landverði, því þau stuðla að því að halda burtu sjúkdómum. Allir þeir sem eru bólusettir eru landverðir.“

Barnið sem smitaðist er aðeins 13 mánaða og því ekki komið á bólusetningaraldur, sem er 18 mánuðir. Ljóst er að þetta fyrsta mislingasmit á Íslandi í 18 ár barst að utan, en einkennin komu ekki upp fyrr en um það leyti sem fjölskyldan kom heim úr ferðalagi.

Að sögn Haraldar er meðgöngutími mislinga 10-12 dagar frá smiti og líklegt að barnið hafi verið hætt að bera smitið með sér fljótlega eftir að það var lagt inn á spítalann. Systkini og foreldrar barnsins eru öll bólusett gegn mislingum og því varin, líkt og meirihluti Íslendinga. 

Aukin ferðalög og fólksflutningar milli heimshluta auka hins vegar óhjákvæmilega hættuna á því að smit berist manna á milli. „Það sem maður hefur áhyggjur af er eldra fólk sem ekki er bólusett. Það ætti að huga að því að láta bólusetja sig ef það fer í ferðalög inn á svona svæði,“ segir Haraldur.

Skilningur á mikilvægi bólusetninga

Síðasti mislingafaraldur á Íslandi var 1977, ári eftir að bólusetningar hófust, en smitsjúkdómurinn er enn víða landlægur. Í Evrópu hefur mislingatilfellum fjölgað síðustu misseri og m.a. komið upp í nágrannalöndum okkar.

„Menn hafa lyft brúnum yfir þessu því það bendir til að bólusetningar séu ekki alveg í lagi. Það eru samfélagshópar sumstaðar sem ekki eru vel bólusettir, Rómafólkið og ákveðnir trúarhópar í Hollandi til dæmis. Þar koma þessir sjúkdómar upp, eins og mislingar og lömunarveiki, þannig að það eru viss vandamál í Evrópu að ná því hlutfalli bólusettra sem þarf til að ekki brjótist út hópsmit,“ segir Haraldur.

Aðspurður segir hann að neikvæður áróður gegn bólusetningum, sem stundum skýtur upp kollinum, virðist ekki hafa haft mikil áhrif hér á landi. „Fólk skilur mikilvægi þessa. Það er hópur manna sem er mjög andvígur bólusetningum, en hann er mjög fámennur sem betur fer.“

Á Íslandi er staðan því nokkuð góð og þátttaka í bólusetningum almennt um 90-95%. Haraldur bendir á að þátttakan sé best í fyrstu bólusetningunum, hjá 3 og 6 mánaða börnum, en í 12 mánaða bólusetningum detti hlutfallið aðeins niður.

„Þetta sýnir að við þurfum að herða okkur aðeins, en það nýtist okkur mjög vel hversu nákvæma skrá við höfum yfir þetta. Við getum fundið hvaða börn eru ekki bólusett og reynt að hafa uppi á þeim.“

Fullorðið fólk sem ekki hefur verið bólusett gegn mislingum ætti …
Fullorðið fólk sem ekki hefur verið bólusett gegn mislingum ætti að íhuga bólusetningu fyrir ferðalög. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka