Vindhraði í hámarki fram til kl. 17

Slagveður í miðbæ Reykjavíkur í dag.
Slagveður í miðbæ Reykjavíkur í dag. mbl.is/ Ómar

Vindhraði er nú í hámarki á suðvesturhorni landsins og búist er við að svo verði fram til u.þ.b. kl. 17, en þá fer að draga úr vindi og fer að hvessa norðaustanmegin á landinu. Klukkan rúmlega 3 í dag mældist vindhraði mestur 28 m/s, það var við Búlandshöfða á norðanverðu Snæfellsnesi. Hálka og ófærð er víða um land. Sökudólgurinn er kröpp lægð yfir Grænlandshafi. 

„Það er víða mikið hvassviðri, stormur og rok,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is um klukkan hálffjögur í dag. „Það mældust 23 m/s við Kolgrafafjarðarbrú, 25 m/s á Stórholti við Stykkishólm. Á Kjalarnesi eru nú 20 m/s og á Grindavíkurvegi 23 m/s, á Hestfjalli 24 m/s og í Þrengslunum er stormur, 23 m/s.“

Talsverður vindhraði á Reykjanesbraut

Einnig mældist talsverður vindhraði á Reykjanesbraut, 23 m/s. „Þetta verður í hámarki á höfuðborgarsvæðinu næstu tvo tímana eða svo, til klukkan fimm. Þá fer að hvessa á Norðausturlandi. Þar verður stormur og hvassvirði fram til morguns,“ segir Þorsteinn.

Sökudólgurinn er kröpp lægð, 960 hPa (hektópaskal) á Grænlandshafi, sem fer um Grænlandssund, á leið norður, í kvöld og nótt. „Þegar hún verður komin norður fyrir landið dregur fljótlega úr vindi og það verður hægur vindur á morgun og úrkomulítið fram til annars kvölds þegar súld eða rigning kemur yfir suðaustanvert landið, hugsanlega eitthvað yfir Suðurlandið líka,“ segir Þorsteinn. 

Lítið vit í að vera á ferð á norðanverðu Snæfellsnesi

Hann segir að víða hafi snjóað á fjallvegum á norðan- og vestanverðu landinu í dag. „Á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum, þannig að Holtavörðuheiðin gæti verið erfið. Nú er við frostmark þar og 18 m/s. 19 m/s eru á Bröttubrekku og á Vatnaleið og Fróðárheiði á Snæfellsnesi eru 21-25 m/s. þannig að fjallvegirnir eru slæmir. Svo sýnir Búlandshöfði á norðanverðu Snæfellsnesi 28 m/s. Það er það mesta sem ég hef séð í byggð í dag,“ segir Þorsteinn. „Það er lítið vit í að vera á ferðinni þar núna.“

Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, hafa ekki verið nein útköll vegna veðurofsa í dag. Sömu sögu er að segja af slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.

Víða er ófært

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að óveður sé Suðvesturlandi en vegir að mestu leyti greiðfærir, eins er óveður á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Á Suðurlandi eru hálkublettir í uppsveitum. Ófært er um Krísuvíkurveg við Kleifarvatn.

Það eru hálkublettir og snjóþekja víða á Vesturlandi. Ófært og óveður er á Fróðárheiði. Óveður er á norðanverðu Snæfellsnesi. Hálka og skafrenningur er á Bröttubrekku og Holtavörðuheiði. Óveður er við Hafnarfjall.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á vegum og víða skafrenningur á fjallvegum. Ófært og stórhríð er á Kleifaheiði og beðið með mokstur.

Hálka eða hálkublettir eru víðast hvar á Norðurlandi en þæfingsfærð á Þverárfjalli. Vegurinn um Hólasand er ófær og þungfært er í Bárðardal. 

Ófært er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði og verður ekki mokað í dag.

Víða er hálka eða hálkublettir á Austurlandi en snjóþekja á Fjarðarheiði. Greiðfært er að mestu frá Reyðarfirði og áfram með suðausturströndinni.

Frétt mbl.is: Best að sleppa ferðalögum í dag

Hjólreiðamenn börðust á móti vindi og skrýddust regnslám á höfuðborgarsvæðinu …
Hjólreiðamenn börðust á móti vindi og skrýddust regnslám á höfuðborgarsvæðinu í dag. mbl.is/ Ómar
Búist er við að draga muni úr vindhraða síðdegis í …
Búist er við að draga muni úr vindhraða síðdegis í dag. Myndin er tekin í miðborg Reykjavíkur í dag. mbl.is/ Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka