Spá 40-50 metrum á sekúndu

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar varar vegfarendur við djúpri lægð sem er á leið vestur fyrir land.

„Samfara djúpri lægð fyrir á leið vestur fyrir land er spáð SA- og síðar SV-stormi með úrkomu og skörpum blota sem nær einnig víða upp á fjallvegi. Þar sem sem snjór og ís er fyrir verður flughált við þessar aðstæður síðar í dag og kvöld. Reikna má með hviðum 30-40 m/s á utanverðu Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli eftir hádegi og til kl. 17. Allt að 40-50 m/s á norðanverðu Snæfellsnesi frá því um kl. 15 og fram á kvöld,“ segir í frétt frá Vegagerðinni.

Veðurstofan hefur sent frá sér viðvörun vegna veðursins sem von er á síðar í dag.

„Veðurstofan vekur athygli á því að spáð er vonskuveðri á S- og V-verðu landinu í dag og fram á nótt. Viðvörun: Búist er við að gangi í storm eða rok (vindhraða yfir 20 m/s) á S- og V-verðu landinu upp úr hádegi. Veðurhorfur á landinu: Vaxandi suðaustanátt, 18-25 m/s S- og V-lands og talsverð rigning síðdegis, en hægari og slydda N- og A-lands undir kvöld.

Búast við mikilli hálku víða um land. Veðrið nær hámarki SV-lands milli kl. 15 og 17 í dag, en gengur síðan niður. Snýst í suðvestanátt með skúrum í kvöld og gengur þá í storm við Breiðafjörð, Vestfirði, á Ströndum og NV-landi. Dregur úr vindi og kólnar með éljum V-til í nótt, en áfram hvassviðri NV-lands til morguns.“

Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en annars er víða snjóþekja eða einhver hálka á Suðurlandi. Þæfingur er í Kjósarskarði og á Lyngdalsheiði en þungfært í Grafningi.

Það er hálka eða snjóþekja víða á Vesturlandi og skafrenningur á flestum fjallvegum. Ófært er á Fróðárheiði og beðið með mokstur.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum vegum og snjókoma á sunnanverðum fjörðunum. Snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði en ófært um Þröskulda.

Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru víðast hvar á Norðurlandi. Vegurinn um Hólasand er ófær og þungfært er í Bárðardal. 

Ófært er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði.

Víða er hálka eða hálkublettir á Austurlandi en ófært á Vatnsskarði eystra en þar er unnið að hreinsun. Greiðfært er síðan frá Reyðarfirði að Kvískerjum en hálka, snjóþekja og hálkublettir áfram með suðurströndinni.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert