Veðurfræðingur Vegagerðarinnar varar vegfarendur við djúpri lægð sem er á leið vestur fyrir land.
„Samfara djúpri lægð fyrir á leið vestur fyrir land er spáð SA- og síðar SV-stormi með úrkomu og skörpum blota sem nær einnig víða upp á fjallvegi. Þar sem sem snjór og ís er fyrir verður flughált við þessar aðstæður síðar í dag og kvöld. Reikna má með hviðum 30-40 m/s á utanverðu Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli eftir hádegi og til kl. 17. Allt að 40-50 m/s á norðanverðu Snæfellsnesi frá því um kl. 15 og fram á kvöld,“ segir í frétt frá Vegagerðinni.
Veðurstofan hefur sent frá sér viðvörun vegna veðursins sem von er á síðar í dag.
„Veðurstofan vekur athygli á því að spáð er vonskuveðri á S- og V-verðu landinu í dag og fram á nótt. Viðvörun: Búist er við að gangi í storm eða rok (vindhraða yfir 20 m/s) á S- og V-verðu landinu upp úr hádegi. Veðurhorfur á landinu: Vaxandi suðaustanátt, 18-25 m/s S- og V-lands og talsverð rigning síðdegis, en hægari og slydda N- og A-lands undir kvöld.
Búast við mikilli hálku víða um land. Veðrið nær hámarki SV-lands milli kl. 15 og 17 í dag, en gengur síðan niður. Snýst í suðvestanátt með skúrum í kvöld og gengur þá í storm við Breiðafjörð, Vestfirði, á Ströndum og NV-landi. Dregur úr vindi og kólnar með éljum V-til í nótt, en áfram hvassviðri NV-lands til morguns.“
Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en annars er víða snjóþekja eða einhver hálka á Suðurlandi. Þæfingur er í Kjósarskarði og á Lyngdalsheiði en þungfært í Grafningi.
Það er hálka eða snjóþekja víða á Vesturlandi og skafrenningur á flestum fjallvegum. Ófært er á Fróðárheiði og beðið með mokstur.
Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum vegum og snjókoma á sunnanverðum fjörðunum. Snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði en ófært um Þröskulda.
Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru víðast hvar á Norðurlandi. Vegurinn um Hólasand er ófær og þungfært er í Bárðardal.
Ófært er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði.
Víða er hálka eða hálkublettir á Austurlandi en ófært á Vatnsskarði eystra en þar er unnið að hreinsun. Greiðfært er síðan frá Reyðarfirði að Kvískerjum en hálka, snjóþekja og hálkublettir áfram með suðurströndinni.