„Þetta er ekki ofbeldi, þetta er bara keppnisíþrótt,“ segir Unnar Halldórsson, varaformaður Mjölnis, en í kjölfar bardaga Gunnars Nelsons hafa margir lýst andúð sinni á íþróttinni. Umræðan kemur reglulega upp í kjölfar bardaga Gunnars, barnasálfræðingur segir svarið ekki vera að banna áhorf.
„Eina sem er sorglegra en menn sem stunda ofbeldisíþróttir er fólk sem pissar í sig af aðdáun yfir ofbeldisíþróttum.“ Þetta hafði grínistinn Þorsteinn Guðmundsson að segja í kjölfar bardaga Gunnars Nelsons í blönduðum bardagaíþróttum á Twitter og uppskar andsvör nokkurra sem voru honum ósammála.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar sagði Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum, að Gunnar væri ekki góð fyrirmynd og hugsanlega ætti að banna börnum að horfa á íþróttina.
Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Iceland Express og trymbill, sagði eftirfarandi á Facebook: „Mér finnst Gunnar Nelson frábær íþróttamaður og allt það. En þetta sport er viðbjóður og á ekki að líðast í nútímasamfélagi.“ Í kjölfarið mynduðust heitar umræður á spjallþræðinum.
Fólk hefur augljóslega sterkar skoðanir á íþróttinni MMA eða Mixed Martial Arts og Unnar viðurkennir að stundum geti hún virst ofbeldisfull, en við nánari skoðun komi annað í ljós. Fólk kjósi að taka þátt í henni, búi sig vel undir það og allt fari fram í miklum drengskap.
Foreldrar verði þó að gera upp við sig hvort þau leyfi börnum sínum að horfa á bardagana en þá verði líka að fara fram samtal um að þetta sé einungis ásættanleg hegðun inni í hringnum.
Soffía Elín Sigurðardóttir, barnasálfræðingur, tekur undir orð Unnars um að fræðslan verði að fara fram í tilfellum unglinga og að ung börn hafi ekki þroska til að horfa á slíka bardaga. Þau skilji ekki að þarna megi beita ofbeldi en ekki annars staðar. Hún telur þó enga lausn að banna áhorfið þar sem það hafi sýnt sig að slíkt bann skili litlu og tekur tölvuleikinn Grand Theft Auto sem dæmi.
Mbl.is ræddi við Soffíu Elínu og Unnar, sem er nýkominn frá London þar sem hann fylgdist með Gunnari, ásamt því að líta inn á æfingu hjá Mjölni.