Borgarráð Reykjavíkur hefur staðfest þá skuldbindingu sína að verja hátt í 100 milljónum króna til að fullgera torg við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Torgið verður niðurgrafið við nýtt hús sem hýsa mun stofnunina sem rísa mun á horni Brynjólfsgötu og Suðurgötu.
Í frétt á vef Reykjavíkurborgar segir að gert sé ráð fyrir að framlag borgarinnar til framkvæmdanna komi til greiðslu á allt að þremur árum. „Samkvæmt vinningstillögu um torgið er gert ráð fyrir skjólgóðu torgi sunnanvert við húsið og mun það í formi minna um margt á fornt grískt leikhús með góðri aðstöðu til ýmissa útiviðburða.“ Áætlaður kostnaður við torgið er 92 milljónir króna.
Framkvæmdir við húsið hefjast í sumar og er stefnt að því að vígja það í byrjun árs 2016, þegar þess verður minnst að íslenskar konur hafa notið kosningaréttar í eina öld. Hið nýja hús sem hýsa mun Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur er fjármagnað með söfnunarfé og framlagi úr ríkissjóði. Kaffistofa verður á neðstu hæð og verður hægt að sitja úti á torginu á góðviðrisdögum.