„Ábyrgð þessa fólks er mikil“

Þorsteinn Sæmundsson, alþingismaður.
Þorsteinn Sæmundsson, alþingismaður.

Þingmaður Framsóknarflokksins, Þorsteinn Sæmundsson, gerði að umtalsefni sínu á Alþingi í dag áhrif verðhækkana á matvælum á verðtryggð lán. Vísaði hann til nýlegrar könnunar Alþýðusambands Íslands sem sýndi miklar hækkanir í þeim efnum á sama tíma og gengi krónunnar hefði verið að styrkjast.

Þorsteinn benti þannig á að undanfarna 12 mánuði hefði gengi krónunnar styrkst um 13% að meðaltali. Ef helmingi þeirrar styrkingar væri skilað til baka myndi það leiða til 2% lækkunar á neysluvöruvísitölu næsta mánuð á eftir. Það þýddi að verðtryggð lán landsmanna lækkuðu um 34 milljarða króna.

„Þetta þýðir með öðrum orðum að á meðan verslunin skilar ekki til baka styrkingunni sem hefur orðið á íslensku krónunni þá eru verðtryggðu lánin okkar allra, sem ættu að vera að lækka, að hækka. Og ég segi, herra forseti, að ábyrgð þessa fólks er mikil. Ég held að það sé kominn tími til þess að menn horfist í augu við þá ábyrgð, þá samfélagslegu ábyrgð sem þeir bera, á meðan sívaxandi samþjöppun á sér stað á þessum markaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert