„Það eru engin sérstök áform um frekari fundi í dag,“ segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is spurður um framhaldið varðandi þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, um að umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið verði dregin til baka. Ekki standi annað til en að fara að dagskrá þingsins í dag. Samkvæmt henni hefst þingfundur klukkan 13:30 og er tillagan fyrsta mál á dagskrá að loknum umræðum um störf þingsins.
Formenn stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á Alþingi funduðu í gær um málsmeðferðina vegna þingsályktunartillögunnar en engin niðurstaða varð í málinu. Einar sagði í samtali við mbl.is í gær að fundurinn hefði engu að síður verið ágætur. Fyrsta umræða um þingsályktunartillöguna hélt áfram klukkan 19:00 í gær og stóð í um klukkutíma.
Samkvæmt áætlun átti umræðan að hefjast um þremur tímum fyrr en stjórnarandstaðan lagðist gegn því að umræðan hæfist áður en fundur formannanna hefði farið fram og fór tíminn að miklu leyti í umræður um málið undir liðnum fundarstjórn forseta þar sem stjórnarandstæðingar komu upp í ræðustól og ítrekuðu þá kröfu sína.